Starfsemi Tabú

Við veitum upplýsingar – Tabú heldur úti öflugri heimasíðu þar sem birtar eru umfjöllun um, viðtöl við og greinar eftir fatlað fólk og foreldra fatlaðra barna. Jafnframt nýtir Tabú samfélagsmiðla eins og facebook og Twitter (@tabufem] til þess að stunda virðingarvakningu og vekja athygli á málefnum líðandi stundar.

Við höldum námskeið – Nú þegar hafa verið haldin tvö námskeið fyrir fatlaðar konur þar sem fjallað var um áhrif og afleiðingar fötlunarfordóma, kynjamisréttis, klámvæðingar og ofbeldis á líkamsímynd, kynverund og stöðu mannréttinda fatlaðra kvenna. Markmið námskeiðana er að skapa öruggt rými fyrir fatlaðar konur (cis og trans) og annað fatlað transfólk svo við getum deilt reynslu okkar án þess að eiga í hættu á að vera gagnrýnd eða stimpluð. Einnig undirbúum við okkur fyrir aktivisma til þess að sporna gegn jaðarsetningu og mismunun. Þessi námskeið eru haldin með reglulegu millibili og þróast með veðri og vindum baráttunnar.

Við höldum fyrirlestra og námskeið fyrir alla áhugasama – Fyrirlestrarnir og námskeiðin fjalla meðal annars um misrétti, fötlunarfemínisma, ólíkar birtingarmyndir ofbeldis (einkum kerfislægt og menningarbundið ofbeldi og heimilisofbeldi), kynlíf, kynverund og líkamsímynd í tengslum við fötlun, aðgengi að menntun, atvinnuþátttöku, félags- og heilbrigðisþjónustu o.fl. Við tökum einnig að okkur kennslu og námskeiðshald á háskólastigi og námskeið sérsniðin að fagstéttum.

Við veitum fyrirtækjum, félagasamtökum og stofnunum ráðgjöf – Við höfum veitt sveitarfélögum ráðgjöf í tengslum við jafnréttismál og ofbeldismál og unnið með Háskóla Íslands að jafnréttisdögum.

Við bjóðum upp á femíníska einstaklingsráðgjöf á jafningjagrunni – Við bjóðum einstaklingsráðgjöf fyrir fatlað fólk á öllum aldri til þess að vinna úr erfiðum tilfinningum og reynslu varðandi misrétti og hvers kyns ofbeldi. Markmið ráðgjafarinnar er að stuðla að valdeflingu, réttindameðvitund, jákvæðari framtíðarsýn og bættri líkams- og kynímynd. Ráðgjöfin snýst ekki um meðferð á göllum eða vandamálum einstaklinga heldur um að veita manneskjum stuðning við að fjarlægja umhverfislegar hindranir, setja öðrum mörk, skila skömminni og breyta þannig samfélaginu.

Við erum aktivistar – Við getum tekið upp á hverju sem er, hvar sem er, þegar þess er þörf í þágu mannréttinda, jafnréttis og friðar. Við viljum glöð sameinast um mikilvæg baráttumál með öðrum jaðarsettum hópum.