Um Tabú

Ljósmynd frá Druslugöngunni 2014

Tabú er femínísk hreyfing þar sem við beinum sjónum okkar að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Hún er sprottin af baráttukrafti kvenna, sem hafa ekki einungis upplifað misrétti á grundvelli fötlunar og kyngervis, heldur einnig mögulega kynhneigðar, kynþáttar og aldurs svo eitthvað sé nefnt.

Reynslan og rannsóknir sýna að við sem fatlaðar konur eigum oftar en ekki erfitt uppdráttar í hreyfingum fatlaðs fólks þar sem fatlaðir karlar og ófatlað fólk er við stjórnvölinn og reynsluheimur okkar sem kvenna er ekki viðurkenndur.

Á sama tíma hafa femínískar hreyfingar sögulega haft lítinn áhuga á reynslu og baráttumálum okkar, sem skýrist af þeirri afstöðu að umræða og aðgerðir gegn margþættri mismunun skyggi á kynjajafnréttisbaráttuna. Málin vandast enn frekar ef við erum af öðrum kynþætti en hvítum, erum hinsegin, aldraðar eða undir lögaldri.

Fatlaðar konur eru alls staðar en mega hvergi vera. Þess vegna var Tabú stofnað í mars 2014…vegna þess að við erum til og eigum rétt á plássi, valdi og virðingu í samfélaginu.

Áherslur Tabú

Tabú er…

  • hreyfing fatlaðs fólks sem beinir sjónum sínum fyrst og fremst að stöðu fatlaðra kvenna (cis og trans) og annars fatlaðs trans fólks
  • hreyfing sem leggur áherslu á að búa til pláss fyrir fatlað fólk sem upplifir mismunun á grundvelli fötlunar samtímis mismunun á grundvelli annarra þátta, t.d. kynhneigðar, kynþáttar, kyngervis, aldurs og stéttar.
  • hreyfing sem stuðlar að öruggu rými og skapar vettvang fyrir fatlað fólk þar sem það getur sagt sögu sína, deilt sameiginlegri reynslu og haft áhrif á samfélagið án þess að upplifa fordæmingu, hatur og ofbeldi.
  • hreyfing sem veit og viðurkennir að ofbeldi er hversdagslegur veruleiki fatlaðs fólks og vinnur gegn því.
  • hreyfing sem styður alla til þess að rjúfa þögnina og tala um það sem ekki má.

Hvar er Tabú?

Tabú er hér, þar, alls staðar. Við eigum engan beinan samastað nema heimasíðuna okkar. Við getum komið hvert sem er þar sem aðgengi er til staðar. Við erum hreyfanleg og viljum vera sýnileg. Við vinnum við eldhúsborðin okkar, á kaffihúsum, í skólanum og einfaldlega þar sem þörf er á okkur. Við erum fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu en reynum að koma þangað sem eftir okkur er óskað.

Til þess að ná í okkur er best að senda póst á embla@tabu.is eða freyja@tabu.is. Okkur má líka nálgast á facebook. Svo erum við á Instagram og Twitter @tabufem