Virðingarvakning

Oft á ári fara af stað átök til þess að vekja athygli á hinum og þessum málefnum. Eru þær oft undir yfirskrift vitundarvakningar eða herferðar. Tabú hefur farið í slík átök en höfum við brotið heilan um yfirskrift þeirra þar sem hvorki herferð né vitundarvakning hljómar vel í eyrum okkar. Herferð er vísun í stríð og orrustur og samræmist það ekki gildum okkar um frið. Vitundarvakning vísar í það að vekja fólk til vitundar um brýn mál, t.d. fordóma og mannréttindabrot, og hugnast það okkur ekki þar sem við teljum ekki nóg að fólk þurfi einungis að hugsa um eitthvað í örskamma stund og gleyma því svo strax aftur. Við viljum að vakningar af þessu tagi kalli fram breytingar í hugsun og hegðun fólks og höfum því valið að nota hugtakið virðingarvakning. Krafa okkar er ekki einungis sú að eftir baráttumálum okkar sé tekið heldur að þau hafi áhrif á samfélagið og stuðli að virðingu fyrir fötluðu fólki og öðrum hópum sem verða fyrir misrétti.

Skuggaskimun

Tabú hefur farið af stað með Skuggaskimun sem hefur það hlutverk að kanna starfsemi stofnanna, hagsmunasamtaka, sveitarfélaga og fyrirtækja sem veita almenningi þjónustu, upplýsingar, ráðgjöf og stuðning. Okkur berast ítrekað upplýsingar og ábendingar í gegnum okkar innra starf um að ákveðnir staðir uppfylli ekki skilyrði alþjóðlegra mannréttindaskuldbindinga fatlaðs fólks, einkum kvenna og barna. Lesa meira…

Heima hjá mér

Virðingarvakningin Heima hjá mér fer fram vorið 2016 til stuðnings Benedikts H. Bjarnason og Salbjörgu Atladóttur sem hafa bæði þurft að lögsækja Reykjavíkurborg fyrir mannréttindabrot og tapað málunum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og öðru fyrir hæstarétti. Fatlað fólk sem býr við þau réttindi að búa heima hjá sér með aðstoð deilir nú reynslu sinni í gegnum greinaskrif með það að markmiði vekja athygli á því misrétti sem á sér stað við úthlutun þjónustu. Virðingarvakningin fer fram undir myllumerkinu #heimahjámér Lesa meira…

Á myndinni má sjá glæru sem varpað hefur verið upp á vegg. Titill glærunar er #heimahjámér og á henni eru tvær myndir, önnur af Benedikt Bjarnasyni og hin af Salbjörgu Atladóttur. Í vinstra horni glærunar stendur „Ég stend með ykkur Salbjörg og Benedikt, ykkar barátta verður líka mín því saman erum við sterkari.“ – Ágústa Eir Guðnýjardóttir

 

Druslugangan 2014

Laugardaginn 26. júlí 2014 var Druslugangan farin í fjórða sinn á Íslandi. Fatlaðar konur úr öllum áttum sameinuðust fyrir Druslugönguna það árið til þess að vekja athygli á því ofbeldi sem fatlaðar konur verða fyrir. Um 20 fatlaðar konur lögðu á sig mikla vinnu í samstarfi við Tabú við skipulag og undirbúning svo skilboðin kæmust vel til skila í Druslugöngunni. Úr varð mikill kraftur sem skilaði sér svo sannarlega þar sem skilaboð okkar, fatlaðra kvenna, voru áberandi og afdráttalaus! Lesa meira…

Mynd úr Druslugöngunni, tekin upp Skólavörðustíginn

 

Kúgun hversdagsins

Virðingarvakningin hófst þann 13. desember 2014 á facebooksíðu Tabú í þeim tilgangi að vekja athygli almennings á öllum þeim fötlunarfordómum, fyrirlitningu og staðalmyndum sem birtast okkur dags daglega í gegnum fjölmiðla og samskiptamiðla. Lesa meira…

Á myndinni er frétt um fólk með ADHD sem birtist á Rúv 24. september 2014. Fyrirsögnin er: ADHD ýtir undir afbrotahegðun Fyrsta setningin er: ADHD getur eyðilagt líf fólks, ef sjúkdómurinn er ekki meðhöndlaður. Því fyrr því betra segir prófessor í réttarsálfræði.

 

Í fréttum er þetta helst

Virðingarvakningin Í fréttum er þetta helst hófts þann 20. mars 2014 með pistli Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur ‘Lætur píkuna ekki aftra sér’ þar sem hún fjallaði um þá orðræðu sem ríkir í fjölmiðlum um fatlað fólk. Í kjölfarið birti Tabú myndaalbúm á facebook þar sem safnað var  saman Íslenskum hetjufréttum af fötluðu fólki. Lesa meira…

Samkvæmt Fréttatímanum lætur Ólafur fötlun sína ekki aftra sér frá því að láta drauma sína rætast og vera opinn fyrir ástinnni.