top of page

24 hlutir sem við hefðum viljað vita um kynlíf þegar við vorum fimmtán ára


Höfundar: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Freyja Haraldsdóttir

1. Við hefðum viljað vita að skerðingar okkar takmarka ekki möguleika okkar til þess að stunda gott kynlíf og vera eftirsóknarverðir makar.

2. Við hefðum viljað vita að það væri ekki óaðlaðandi að vera fötluð kona.

3. Við hefðum viljað vita af fötluðum konum eins og Alison Lapper, Aimee Mullins og Bethany Stevens til þess að öðlast fyrirmyndir sem við gætum samsamað okkur við.

4. Við hefðum viljað vita að kynlíf hefur minnst að gera með líkamann og mest að gera með hugarástand og samskipti.

5. Við hefðum viljað vita að notendastýrð persónuleg aðstoð er til og að þess vegna yrðum við ekki háðar foreldrum okkar og mökum alla ævi.

6. Við hefðum viljað þekkja hugtakið ableismi og vita að niðurlægjandi framkoman og viðbrögðin sem við upplifðum var sökum fordóma ófatlaðs fólks en ekki líkama okkar.

7. Við hefðum viljað vita hve feminismi yrði okkur frelsandi og að okkur væri ekki bara mismunað á grundvelli fötlunar heldur einnig kyngervis.

8. Við hefðum viljað vita að ótti okkar um að geta ekki flutt að heiman og eignast maka og börn væri eðlilegur miðað við fordóma samfélagsins en ekki raunverulega á rökum reistur.

9. Við hefðum viljað vita að fatlað fólk hefur ólíka kynhneigð og kynvitund eins og ófatlað fólk.


Fjögur skjáskot úr sjónvarpsþáttum sem sýna pör í kynferðislegum athöfnum ýmist í lyftum eða á eldhúsborðinu.

Fjögur skjáskot úr sjónvarpsþáttum sem sýna pör í kynferðislegum athöfnum ýmist í lyftum eða á eldhúsborðinu


10. Við hefðum viljað vita að fyrirvaralaust lyftukynlíf í Greys Anatomy er ekki eina leiðin til þess að stunda kynlíf. Flest fólk, fatlað og ófatlað, kýs að stunda kynlíf í aðgengilegri aðstæðum og með meiri fyrirvara.

11. Við hefðum viljað vita að skerðingar okkar eru hvorki gild ástæða né afsökun fyrir ofbeldi.

12. Við hefðum viljað vita að líkamshatur og brothætt kynímynd væri ekki afleiðing skerðinga okkar heldur klámvæðingar og útlitsdýrkunar.

13. Við hefðum viljað vita að við værum ekki þær einu sem upplifðum fordóma og niðurlægingu og að til væri fólk sem væri að berjast gegn ableisma.

14. Við hefðum viljað vita að það var ekkert að okkur heldur kynfræðslunni sem við fengum í skólanum sem sýndi bara ófatlaða líkama.

15. Við hefðum viljað vita að við ættum ekki að ýta kynverund okkar til hliðar til þess eins að valda ekki ófötluðu fólki óþægindum.

16. Við hefðum viljað geta lesið bækur á borð við The Ultimate Guide to Sex and Disability e. Miriam Kaufman, Cory Silverberg og Fran Odette sem er skrifuð af fötluðu fólki fyrir fatlað fólk um kynlíf.

17. Við hefðum viljað vita að skömmin var ekki okkar, að við þyrftum ekki að sætta okkur við fordóma né taka ábyrgð á þeim og ættum rétt á því að líða illa.

18. Við hefðum viljað vita að líkamar okkar eru ekki almenningseign og viðfang annarra.

19. Við hefðum viljað vita að það að setja öðrum mörk og gera kröfur til framkomu annarra væri ekki óþekkt, frekja og stælar heldur mannréttindi.

20. Við hefðum viljað vita að við þyrftum ekki að sætta okkur við kynlíf og ástarsambönd sem við nytum ekki einfaldlega vegna þess að við ættum að vera svo yfirmáta þakklátar fyrir að einhver sýndi okkur áhuga.

21. Við hefðum viljað vita að fólk myndi ekki laðast að okkur þrátt fyrir skerðingu heldur af því að við erum eins og við erum.

22. Við hefðum viljað vita að okkur myndi ekki alltaf líða svona illa.

23. Við hefðum viljað vita að það að byggja upp jákvæða líkams- og kynímynd er æviverkefni en ekki eitthvað sem klárast einn daginn. Sumir dagar verða alltaf erfiðari en aðrir og það er allt í lagi.

24. Við hefðum viljað vita hve miklu meira við myndum vita, hve miklu betur okkur myndi líða og hve innihaldsríku lífi við lifðum í september 2014.

37 views

Recent Posts

See All
bottom of page