top of page

Druslugangan 2016: Að upplifa líkama sinn sem almenningseign: Áhrif og afleiðingar margþættrar mis

Höfundur: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir. Erindi flutt á málþinginu Fatlaðir þolendur kynferðisbrota sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík þann 24. maí 2016.

Ég kom í heiminn á bjartri ágústnótt eftir langa og erfiða fæðingu. Ég kom inn í þennan heim án nokkurs lífsmarks og því þurftu læknarnir að byrja á því að endurlífga mig. Blessunarlega gekk endurlífgunin vel og fjölskyldan gat andað léttar. Og þó, læknarnir vissu að ég hefði orðið fyrir súrerfniskorti sem að öllum líkindum myndi leiða af sér einhverskonar fötlun. Í stað þess að gleðjast yfir því að ég væri á lífi var orku heilbrigðisstarfsfólksins að miklu leyti varið í að velta vöngum yfir því hversu mikið fötluð ég yrði.

Það var einmitt á þessu augnarbliki sem líkami minn fór úr því að vera lítill krúttlegur líkami barns og varð viðfang læknavísindanna og síðar viðfang allra sem áhuga höfðu.

Ég byrjaði fljótlega í reglulegri sjúkraþjálfun. Á sama tíma og önnur börn voru áhyggjulaus að leik í leikskólanum eða að kúldrast upp í sófa var ég í þjálfun þar sem ég lærði að sitja rétt, borða rétt og ganga rétt. Ég upplifði líkamann minn aldrei sem neinn óvin og ég fann mér alltaf leiðir til þess að gera allt, en það merkilega var að mínar aðferðir virtust oft vera rangar. Ég gat setið við borð og leikið mér, en ég sat ekki rétt… að mati sérfræðinganna. Það þurfti að laga mig því líkami minn var ekki nógu góður, – út á það gekk þjálfunin. Skilaboðin voru skýr – ég átti líkamann minn ekki sjálf.

Ég man eftir atviki þegar ég var u.þ.b. 9-10 ára. Þá fór ég til læknis og með mér voru að sjálfsögðu foreldrar mínir og svo einhverjir fleiri sérfræðingar hjá lækninum, ég man ekki hverjir. Að venju átti ég að fara úr öllu nema nærbuxunum. Fyrst var ég skoðuð og mæld út á bekknum og svo var ég beðin um að ganga frá glugganum að hurðinni. Það var þessi ganga sem vafðist alltaf svolítið fyrir mér. Það var eitthvað svo skrýtið að standa þarna nánast nakin, algjörlega varnalaus og ganga fyrir framan alla þessa áhorfendur. Þau voru ekki að horfa á mig vegna áhuga eða aðdáunar, þau voru að skoða mig, greina mig, taka mig út og í raun, velta mínum afbrigðilega og ófullkomna líkama fyrir sér. Ég vissi aldrei alveg hvert var markmiðið með þessu, en ég lærði það fljótt að göngulag mitt þótt hvorki rétt né aðlaðandi. Því lögðu allir þessir sérfræðingar sig fram um að breyta því. Þessir sömu sérfræðingar höfðu samt fimm árum áður ítrekað fullyrt að ég kæmi aldrei til með að geta gengið. Ég fann mér leið til að ganga, en mín leið var að sjálfsögðu ekki viðunandi. Skilaboðin voru skýr – ég átti líkamann minn ekki sjálf.

Ég gekk alla tíð í almennan skóla og gekk það vel. Ég þurfti talsverða persónulega aðstoð sem flæktist lítið fyrir mér, en ég vildi ekki að hver sem er aðstoðaði mig á klósettið. Ég var með stæla og óraunhæfar kröfur. Ég gat ekki fengið að stjórna þessu sjálf. Ég talaði ekki mikið um þetta því mér fannst ég svo mikill aumingi að geta ekki þegið þá aðstoð sem í boði var. Ég hélt því í mér mest alla skólagönguna, en sagði engum frá því. Þetta var mitt vandamál því ég vildi ekki aðstoðina. Þetta var mín skömm og skömmin var mikil. Í raun var ég þarna að setja mörk, en litið var á það sem stæla. Skilaboðin voru skýr – ég átti líkamann minn ekki sjálf.

Er ég geng um götur borgarinnar horfir fólk á eftir mér, það glápir og margir spyrja persónulegra spurninga. Hvað kom fyrir þig? Af hverju ertu svona? Fólk er líka oft dónlegt, talar barnalega til mín eða gerir hreinlega ráð fyrir að ég geti ekki talað fyrir mig sjálf. Ég var mjög ung þegar ég fór að finna verulega fyrir slíkum fordómum í samfélaginu og eðli málsins samkvæmt fóru þeir fyrir brjóstið á mér. Alltaf var mér ráðlagt það sama: „ekki taka þetta nærri þér, fólk meinar þetta ekkert illa, þú ert kannski bara að misskilja…“ „Það er best að vera bara jákvæð og útskýra fyrir fólki. Það veit ekki betur og getur ekkert að því gert.“ Þarna lærði ég enn og aftur að setja engin mörk – sýna öllu skilning og bara brosa. Skilaboðin voru skýr – ég átti líkamann minn ekki sjálf.

Líkaminn virðist vera einhverskonar viðfang. Það virðast allir eiga þennan líkama, nema ég sjálf! Líkami minn er almenningseign.

Mér finnst mikilvægt að taka það fram að ég á frábæra fjölskyldu sem barist hefur með mér í gegnum hindanir samfélagsins og hjálpað mér að elska sjálfa mig og líkamann minn. Án þeirra væri ég einhversstaðar allt annars staðar en hér. En það er erfitt og flókið að elska sjálfa sig og líkamann sinn ef allt í samfélaginu beinir þér frá því.

Mörg okkar sem erum hér saman komin í dag vitum vel að dæmin sem ég hef tekið úr minni barnæsku eru lýsandi fyrir raunveruleika fjölda fatlaðs fólks á Íslandi í dag. Mikilvægt er að átta sig á því að ég tilheyri ákveðnum forréttindahópi innan hópsins. Margt fólk með þroskahömlun býr til að mynda við mun meiri jaðarsetningu og valdaleysi en ég hef nokkurn tímann upplifað. Sjaldnast tengjum við þó þennan veruleika við háa tíðni ofbeldis gegn fötluðu fólki. En við verðum að skoða þennan veruleika – þessa menningu – til að geta sett hlutina í samhengi og skilið orsakir þeirra og afleiðingar.

Við vitum vel að ofbeldi gerist ekki að sjálfu sér heldur á það sér stoðir innan ákveðins veruleika og menningar, menningar sem við öll tökum þátt í að skapa og viðhalda. Hér í dag höldum við til dæmis málþing um fatlaða brotaþola kynferðisofbeldis þar sem ég er eina fatlaða manneskjan á mælendaskrá. Ég er jaðarsett á málþingi sem snýst um fatlað fólk. Eins og ég segi, við tökum öll þátt í að skapa og viðhalda þessari menningu með einum eða öðrum hætti.

Á málþinginu hér í dag hafa komið fram miklar upplýsingar bæði um tíðni kynferðisofbeldis gegn fötluðu fólki og um það hvað það er í umhverfinu og menningunni sem veldur þessari háu tíðni. Þetta eru upplýsingar sem legið hafa fyrir í talsverðan tíma og fjallað hefur verið um opinberlega. Þekkingu fylgir ábyrð og það er í raun glæpsamlegt að við sem manneskjur tökum þátt í því að viðhalda núverandi menningu, þjónustuúrræðum og jaðarsetningu fatlaðs fólks, vitandi að það veldur gríðarlegu ofbeldi.

Við berum öll ábyrgð…

Þann 17. nóvember sl. gekk ég ásamt hópi kvenna frá Tabú og Kvennahreyfingu ÖBÍ kröfugöngu milli ráðuneyta og Alþingis til að mótmæla niðurfellingu máls um kynferðisofbeldi á Nýjabæ. Þarna komu saman fatlaðar konur úr ólíkum lögum samfélagsins sem allar áttu það sameiginlegt að hafa persónulega upplifað margþætta mismunun. Mikill hiti var í hópnum enda tengdum við allar á einhvern hátt við þetta mál. Reiðin beindist ekki eingöngu að umræddum brotum, heldur einnig að allri kúguninni innan kerfisins og valdaleysi fatlaðra kvenna gagnvart kerfinu.

Eins og fram hefur komið hefur hverskyns jaðarsetning áhrif á ofbeldi og eru því fatlaðar konur til að mynda í sérstakri hættu á að verða fyrir ofbeldi. Oftar en ekki heyri ég því fleygt að fatlaðar konur verði fyrir meira ofbeldi því þær geti ekki varið sig, eða að fatlaðar konur séu viðkæmur hópur sem vernda þurfi sérstaklega. Eins er því oft haldið fram að gerendur nýti sér fötlun brotaþola til þess að koma vilja sínum fram.

Mikilvægt er að átta sig á því að gerendur nýta sér ekki fötlunina sem slíka heldur nýta þeir sér jaðarsetta stöðu okkar. Dómskerfið kýs til að mynda að líta á okkur, fatlaðar konur, sem ótrúverðug vitni. Þetta vita gerendurnir manna best og notfæra sér óspart. Það væri eflaust lítið varið í að misnota okkur kynferðislega ef á okkur væri hlustað. Þannig eru gerendurnir ekki að nýta sér fötlun okkar heldur það valdaleysi og kúgun sem við búum við á öllum sviðum. Hvort sem um ræðir innan dómskerfisins eða þjónustukerfisins svo dæmi séu nefnd.

Það er ekki tilviljun að fatlaðar konur verða fyrir ofbeldi. Þetta er ekki einhver ótrúleg óheppni og ofbeldið stafar ekki af því að fatlaðar konur geta ekki varið sig.

Í sameiningu höfum við búið okkur til samfélag þar sem ofbeldi, kúgun og misrétti er talið hversdagslegt og jafnvel eðlilegt fyrir tiltekna hópa, – einhverskonar náttúrulögmál. Fólk keppist við að afsaka ofbeldið og afgreiða það sem fáfræði. Svo hvetjum við fatlað fólk til að mæta ofbeldinu með umburðarlyndi og bros á vör. Slík menning er gróðrarstía ofbeldis.

Þegar kemur að ofbeldi gagnvart fötluðu fólki er ekki endilega alltaf hægt að tala um ákveðin geranda og tiltekið atvik. Ofbeldið er allstaðar og birtist með ólíkum hætti. Eins og ég lýsti hér í upphafi birtist það til dæmis í valdi fagfólks og lækna yfir líkömum fatlaðs fólks. Fatlaðar konur víða um heim, líka hér á Íslandi, eru til dæmis þvingaðar í ófrjósemisaðgerðir gegn þeirra eigin vilja. Stundum eru aðgerðirnar framkvæmdar án vitundar kvennanna. Í mörgum tilfellum er þetta gert svo að við, fötluðu konurnar, verðum nú ekki óléttar – þegar okkur verður nauðgað. Þannig er litið á kynferðisofbeldi sem órjúfanlegan hluta af lífi fatlaðra kvenna.

Í 25 ár hef ég verið þjálfuð upp í það að hafa helst engin mörk og mér er jafnvel hrósað fyrir slíkt. Í 25 ár hefur mér verið kennt að ég eigi líkama minn ekki sjálf heldur beri mér að deila líkama mínum og upplýsingum um hann með öllum þeim sem áhuga hafa. Þessi reynsla hefur áhrif á allt sem ég geri hvort sem mér líkar það betur eða verr.

Sem fötluðu kona á Íslandi lifi ég í stöðugum ótta við ofbeldi. Það er í raun alveg sama hvar ég stíg niður fæti það er alltaf líklegra en ekki að ég verði fyrir ofbeldi. Þessi staða er ekki náttúrulögmál. Þessi staða er manngerð. Hún er til komin vegna gjörða okkar allra.

Við verðum öll að taka ábyrgð!

16 views

Recent Posts

See All
bottom of page