top of page

Glerkassinn

Höfundur: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Ég var ung að árum er ég áttaði mig á því að hugtök á borð við dugleg og hugrekki voru notuð með gjörólíkum hætti um mig og annað fólk. Jafnaldrar mínir og félagar voru dugleg ef þau hjálpuðu til við heimilisverkin eða stóðu sig vel í íþróttum og hugrökk ef þau stóðu upp fyrir framan bekkinn og lásu sögu eða gerðu eitthvað sem var erfitt eða óþægilegt. Ég hins vegar var sífelt sögð dugleg og hugrökk en sjaldnast var það fyrir einhver sérstök afrek. Ég þótti, og þyki reyndar enn, bara svona ofboðslega dugleg að eðlisfari. Ég skildi ekki af hverju fullorðna fólkið var svona asnalegt, dónlegt og vandræðalegt. Stundum deildi ég reynslu minni með fullorðnu fólki og ávallt fékk ég sömu ráðleggingarnar: Vertu kurteis. Fólk meinar vel, það bara veit ekki betur og því verður þú að sýna skilning og vera kurteis. Ég var reið og pirruð – föst inn í einhverskonar glerkassa sem engin sá. Það skipti engu máli hvað ég gerði eða sagði, ég var alltaf krúttlega duglega fatlaða stelpan.

Þó glerkassinn hafi fylgt mér allar götur síðan hef ég ávallt leitað leiða til að takmarka skaðsemi hans. Með enga þekkingu um ableisma og samfélagslega stöðu fatlaðs fólks var það hins vegar afar flókið verkefni. Frá barnsaldri og langt fram á unglingsár treysti ég og trúði á kraft menntunar og hugsað alltaf „þegar ég verð búin með háskóla og komin með góða vinnu hlýt ég að komast út úr glerkassanum og hætta að vera einungis álitin krúttlega duglega fatlaða stelpan.“

Ég var 19 ára er ég tók fyrst þátt í skipulagðri mannréttindabaráttu fatlaðs fólks. Ég tók þátt í stofnun NPA miðstöðvarinnar og barðist fyrir rétti fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs í samfélaginu án aðgreiningar. Baráttuandinn var mikill og þó baráttan væri pólítisk var hún einnig mjög persónuleg. Ég lærði um femínisma í menntaskóla og fann mikla samhljómun milli hans og fötlunarbaráttunnar. Það leið þó ekki á löngu þar til ég áttaði mig á því að lítið rými var fyrir fatlað fólk innan femínískra hreyfinga á sama tíma og femínismi og umræða um kyn átti ekki uppá pallborðið í fötlunarbaráttunni. Skyndilega þrengdi glerkassinn að mér og ég áttaði mig á því að innan fötlunarhreyfingar, sem að mestu hefur verið leidd af fötluðum körlum og ófötluðu fólki, var ég enn föst í kassa krúttlegu duglegu fötluðu stelpunnar.

Það var ljóst að eitthvað þurfti að breytast og í mars 2014 fæddist Tabú. Sem femínísk fötlunarhreyfing opnar Tabú nýja vídd í mannréttindabaráttu. Tabú er vettvangur fyrir fólk sem troðið hefur verið inn í glerkassa þar sem sameiginleg reynsla af margþættri mismunun er nýtt bæði persónulega og sem baráttuafl. Þó glerkassinn sé enn til staðar fæ ég innan Tabú kraft til þess að banka í hann á sama tíma og ég vinn með öðru fötluðu fólki að því skapa samfélag án glerkassa. Innan Tabú þarf ég ekki að vera fötluð á mánudögum, kona á þriðjudögum og samkynhneigð á miðvikudögum til þess að passa réttindabaráttunni betur. Innan Tabú get ég verið ég öll!

19 views

Recent Posts

See All
bottom of page