top of page

„Hann er bara í leit að ódýrum atkvæðum“: Fatlað fólk, kosningaréttur og stjórnmálaþátttaka

Erindi flutt í dag á opnum fundi um kosningaþátttöku undir yfirskriftinni Skiptir mitt atkvæði máli? Samtal við grasrót um kosningaþátttöku. 

Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

Ljósmynd: Gabrielle Motola

Fyrir nokkrum árum sat ég á ráðstefnu um notendastýrða persónulega aðstoð fyrir fatlað fólk, þar sem fræðikona nokkur úr háskólanum, lýsti því yfir í erindi sínu að stjórnmálamaður sem hafði barist ötullega fyrir þessari tilteknu þjónustu hefði einungis gert það til þess að snapa ódýr atkvæði.

Ódýr atkvæði. Þessi tvö orð bergmáluðu í höfðinu á mér það sem eftir lifði dags og sitja enn í mér. Þessi orð segja auðvitað mest um þessa tilteknu konu sem lét það ekki hvarfla að sér að stjórnmálafólki gæti verið annt um að berjast fyrir mannréttindum fatlaðs fólks. En þau eru jafnframt vitnisburður um viðtekið viðhorf til fötlunar. Að við sem erum fötluð skiptum ekki máli. Séum ekki gjaldgeng. Né mikilvæg. Eiginlega ekki mennsk. Ódýrir kjósendur með ódýr atkvæði. Síðasta sort.

Hornsteinn lýðræðis

Kosningaréttur og réttur til stjórnmálaþáttöku er hornsteinn lýðræðis fyrir alla þjóðfélagsþegna. Eins og á svo mörgum öðrum sviðum hefur fatlað fólk orðið fyrir misrétti þegar kemur að tækifærum þess til þess að taka þátt í stjórnmálastarfi og sem virkir kjósendur. Engar rannsóknir hafa þó verið gerðar á kosninga- og stjórnmálaþáttöku fatlaðs fólks á Íslandi. Það er því að mörgu leiti vandmeðfarið að fjalla um möguleika fatlaðs fólks á sviði stjórnmála.

Þá þurfum við að reiða okkur á alþjóðlegar rannsóknir. Þær sýna að á sama tíma og fatlað fólk virðist hafa meiri áhuga á stjórnmálaþáttöku en ófatlað fólk hefur það síður tækifæri til þess að kjósa og bjóða sig fram. Ástæðan fyrir þessu eru margvíslegar en fyrst og fremst samfélagslegar hindranir við ólíkar aðstæður stjórnmála; til dæmis fyrir kosningar, á meðan á kosningum stendur og eftir að þeim líkur. Þá eru einnig margvíslegar hindranir sem koma í veg fyrir að fatlað fólk geti skráð sig í stjórnmálahreyfingar, náð þar framgangi, boðið sig fram og hlotið kosningu.

Í aðdraganda kosninga spilar aðgengi stóran þátt fyrir fatlaða kjósendur. Kosningaskrifstofur og viðburðir eru oft óaðgengilegir. Upplýsingar frá stjórnmálahreyfingum eru gjarnan torveldar og flóknar aflestrar, aðgengi að kosningaskrifstofum mjög misjafnt og upplýsingar í fjölmiðlum oft ekki aðgengilegar fyrir alla, t.d. vegna skorts á táknmálstúlkun, textun og auðskildu máli. Þá fjalla stjórnmálaflokkar mjög sjaldan um réttarstöðu fatlaðs fólks eða hvaða leiðir þeir hyggjast fara þegar kemur að því að jafna tækifæri fatlaðs og ófatlaðs fólks.

Það er líka mjög mikilvægt að tala um orðræðu. Hún er gjarnan valdletjandi og niðurlægjandi. Þá sjaldan sem að stjórnmálaflokkar fjalla um málefni fatlaðs fólks er það oft á þeim nótum að ófatlað fólk ætli að hjálpa eða bjarga fötluðu fólki frá erfiðum aðstæðum – á mjög harmleiksþrunginn hátt. Frasar eins og „þeir sem minna mega sín”, „að hjálpa þeim sem ganga ekki heilir til skógar” eða „að styðja okkar minnstu bræður” heyrast oft í kosningabaráttum og gera að mati margs fatlaðs fólks lítið annað gagn en að upphefja ófatlað fólk á kostnað fatlaðs fólks. Við erum ekki viðföng velgjörðar eða fórnarlömb sem þarfnast bjargvætta heldur borgarar í samfélagi sem gerir kröfu um jöfn réttindi.

Það er einnig athyglisvert að hin ört vaxandi kosningapróf, sem hægt er að taka á netinu til þess að finna sinn rétta flokk eða frambjóðanda, spyrja sjaldan um málefni sem tengjast fötluðu fólki. Þau eru því ekki sérlega hjálpleg. Með þessu er ég ekki að segja að fatlað fólk hugsi bara um sjálft sig heldur að benda á að málefni okkar eru nær undartekningarlaust ósýnileg. Þessi orðræða dregur úr mörgum okkar löngun til þess að fylgjast með stjórnmálum, mynda okkur skoðun eða jafnvel fara og kjósa.

Þegar kemur að kosningunum sjálfum eru kjörstaðir misaðgengilegir, kjörgögn eru erfið viðureignar fyrir sum okkar og mikill klaufagangur og þekkingarleysi einkennir oft vinnubrögð kjörstjórna og starfsfólks þeirra þegar kemur að kosningum. Fæst fatlað fólk á Íslandi hefur aðstoð ef það þarf til þess að mæta á kjörstað og hefur því ekki sömu tækifæri á að mæta til þess að kjósa. Margt langveikt fólk getur ekki veikinda sinna vegna farið á kjörstað og möguleikar þess til þess að kjósa verða því afar takmarkaðir og krefjast mikillar fyrirhafnar. Þá hefur verið bent á að eftir kosningar hefur fatlað fólk ekki sama aðgang að því að afla sér upplýsinga um niðurstöður kosninga og hafa áhrif á umræðu um hvað betur mætti fara í framkvæmd kosninga.

Lagaleg vernd

Ætla má að ein leið til að bæta þessa stöðu sé að tryggja betri lagalega vernd þegar kemur að stjórnmálaþáttöku fatlaðs fólks. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var meðal annars saminn til þess að tryggja borgaraleg réttindi fatlaðs fólks, meðal annars framgöngu þess til þáttöku í stjórnmálum.

29. grein sáttmálans er helguð réttinum til þáttöku í stjórnmálum og opinberu lífi en þar er skýrt kveðið á um að fötluðu fólki skuli tryggður réttur til að taka virkan og fullan þátt í stjórnmálum til jafns við ófatlað fólk og tækifæri til þess að kjósa og vera kosin. Það sterka og fallega við þennan mannréttindasáttmála er að hann er mjög leiðbeinandi til stjórnvalda um hvernig best megi framkvæma réttarúrbætur. Í ákvæðinu er sérstaklega mælst til þess að kosningaaðferðir, kosningaaðstaða og kjörgögn séu við hæfi, aðgengileg og auðskilin. Þá er þeim tilmælum einnig beint til stjórnvalda að fatlað fólk geti tekið þátt í leynilegri atkvæðagreiðslu, það geti boðið sig fram og synnt öllum opinberum störfum á öllum sviðum stjórnsýslu og ef það krefst notkunar hjálpartækja eða aðstoðar skal slíkt tryggt. Sérstaklega er kveðið á um að fatlað fólk eigi að geta valið hver aðstoðar það þegar það greiðir atkvæði sitt. Sáttmálinn leggur líka ríka áherslu á að hindrunum sé rutt úr vegi svo fatlað fólk geti tekið þátt í starfi stjórnmálaflokka og sinnt opinberum störfum.

Ísland undirritaði þennan sáttmála árið 2007 og fullgilti hann árið 2016. Þrátt fyrir að Ísland hafi ekki lögfest sáttmálann þýðir undirritun að við séum sammála innihaldi hans og fullgildingin að okkur beri að innleiða ákvæði hans í íslenska löggjöf og gera ekkert sem gengur gegn honum. Þó svo að fatlað fólk sem fullgildir borgarar í íslensku samfélagi hafi stjórnarskrárvarinn rétt til stjórnmálaþáttöku er afar illa staðið að skýrum og afdráttarlausum ákvæðum sem tryggja þann rétt. Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar tiltekur ekki fötlun sérstaklega sem mismununarbreytu, þó svo að vissulega gildi hún um okkur.

Þá er ákvæði kosningalaga eins og aftur úr fornöld, meira að segja eftir breytingar sem að gerðar voru á þeim árið 2012, eftir mikla og erfiða baráttu. Lög um alþingiskosningar og lög um sveitastjórnakosningar kveða nú á um að sumt fatlað fólk geti haft aðstoð að eigin vali þegar það greiðir atkvæði sitt. Hinsvegar hafði þingið ekki hugrekki til þess að tryggja þann rétt nema fyrir fólk sem getur skýrt tjáð vilja sinn. Fólk sem ekki getur það og þarf aðstoð við atkvæðagreiðslu er þvingað til þess að þiggja aðstoð frá einhverjum sem að það þekkir ekki. Það er auðvitað grafalvarlegt í sjálfu sér að enn einu sinni sé skapað einhverskonar stigveldi innan hópa fatlaðs fólks þar sem sum okkar eru talin meira virði en aðrir. Það sem gerir þetta þó enn verra er að sá hópur er útilokaður frá því að velja sér aðstoðarmann sem mest þarf á því að halda að hafa aðstoðarfólk sem þekkir kjósandann.

Þá er orðræða löggjafarinnar mjög niðrandi en hún segir að fólk sem sér ekki eða sé með ónothæfa hönd megi velja sér aðstoðarfólk eða fá aðstoð við kosningarnar. Þessi orðræða er mjög lýsandi fyrir hefðbundinn læknisfræðilegan skilning á fötlun. Það að blint eða hreyfihamlað fólk geti ekki fyllt út kjörseðil án aðstoðar hefur lítið að gera með líkama okkar og allt að gera með umhverfið. Hönd mín er til dæmis ekki ónothæf, hún hefur t.d. nýverið skrifað 120 blaðsíðna meistararitgerð, en kjörklefinn, kjörseðillinn og skriffærið sem eru til staðar á kjörstað eru þess eðlis að ég get ekki fyllt út kjörseðilinn án aðstoðar. Því hefur einnig verið komið þannig fyrir að við sem að veljum að hafa okkar eigið aðstoðarfólk í kjörklefanum þurfum að fá hin og þessi samþykkin frá kjörstjórn og á meðan þarf að stoppa kjörfundinn. Það þýðir bæði það að við þurfum oft að sendast hingað og þangað og bíða lengi á meðan röðin lengist og lengist frammi. Síðast þegar ég fór að kjósa var t.d. formaður kjörstjórnar ekki við akkúrat þegar ég kom og þurfti ég því að bíða í 40 mínútur. Þið getið ímyndað ykkur hvað fólkið sem beið frammi á gangi var hresst þegar ég kom fram. Og hvernig líður fötluðum kjósendum í þessum aðstæðum? Eins og byrði og blórabögglum.

Tillögur til úrbóta

Það er semsagt margt sem að hægt er að bæta þegar kemur að stjórnmálaþáttöku fatlaðs fólks á Íslandi. Mig langar að fara yfir nokkrar tillögur. Í fyrsta lagi þurfum við að samræma íslenska löggjöf alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum og skilja engan hóp fatlaðs fólks út undan. Lagaumgjörð þarf t.d. að gera þá kröfu á stjórnmálaflokka og frambjóðendur að þeir tryggi aðgengi fatlaðs fólks að upplýsingum, umhverfi og þáttöku alls stjórnmálastarfs þeirra. Til þess að gera framkvæmdina mögulega væri til dæmis hægt að eyrnamerkja fjármagn til stjórnmálaflokka sem að þeir fengju ekki nema þeir uppfylltu þessi skilyrði. Þessi skilyrði eiga einnig í mínum huga einnig að ná til aldraðs fólks og fólks af erlendum uppruna.

Þekkingarleysi er kúgunartæki og úr því þarf að bæta. Í öðru lagi tel ég því afar brýnt að stjórnvöld rannsaki kosningaþáttöku fatlaðs fólks og greini niðurstöður út frá kyngervi, aldri, fötlunarhópi og búsetu. Við þurfum að vera næm og meðvituð um að fatlað fólk er ekki bara ein breyta – við erum fjölbreyttur hópur. Í þessu samhengi þurfa stjórnvöld að gera úttekt á aðstöðu og þekkingu kjörstjórna um land allt og gera leiðbeiningar og fræðslu fyrir allt starfsfólk sem að kemur að framkvæmd kosninga. Í slíkri vinnu er mikilvægt að fatlað fólk sé leiðandi og sinni framkvæmd þessarar vinnu. Samhliða, jafnóðum og í kjölfarið þarf að gera breytingar á aðgengi, auka fjölbreytni í leiðum til þess að kjósa o.sfrv.

Í þriðja lagi þurfa fjölmiðlar að taka sig á og tryggja að þeir krefji stjórnmálamenn svara um stefnu þeirra um málefni fatlaðs fólks en festist ekki í umræðu sem er bæði þröng og einkennist af aumingjagæsku og forræðishyggju. Fatlað fólk þarf að finna að málefni þess séu hátt skrifuð sem mannréttindamál hjá stjórnmálaflokkum og að þekking sé meðal frambjóðenda á kröfum okkar og leiðum til þess að mæta þeim. Það er fátt meira niðurdrepandi en að upplifa að öllum sé sama um farsæld þína og réttindi, að engin sé að hlusta eða að þú sért ósýnileg í pólitískri umræðu. Auðvitað bera stjórnmálaflokkar þungan af ábyrgðinni á að koma í veg fyrir slíkar tilfinningar fatlaðra kjósenda en fjölmiðlar geta og eiga að hafa aðhald með þeirri ábyrgð. Kjörin leið til þess að ná árangri í þessu fyrir fjölmiðla er að ráða til sín fatlað fólk og/eða fá samtök fatlaðs fólks til þess að aðstoða sig við að skerpa á áherslum í umræðu og við gerð kosningaprófa.

Í fjórða lagi þurfa valdamiklar stofnanir í samfélaginu, t.d. ráðuneyti, Alþingi, borgarstjórn og aðrar sveitastjórnir að ganga á undan með góðu fordæmi og tryggja aðkomu fatlaðs fólks að ákvarðanatöku á öllum sviðum og bæta aðgengi, í víðum skilningi, svo fatlað fólk geti starfað innan þeirra raða. Það er nauðsynlegt sem kjósandi að geta horft í kringum sig og séð fólk sem þú getur samsamað þig við eða sem þú veist að hefur upplifað sambærilega hluti og þú. Það eykur tilfinningu um traust og trúverðugleika.

Réttur til stjórnmálaþáttöku er ekki tryggður í tómarúmi

Síðast en ekki síst er lykilatriði að átta sig á að alveg eins og öll önnur réttindi getur réttur til stjórnmálaþáttöku ekki verið tryggður í tómarúmi, heldur þarf að skapast þekking og skilningur á því að önnur réttindi til dæmis félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi eru forsenda þess að borgarleg réttindi séu tryggð. Það hefði ekki verið nokkur möguleiki fyrir mig að bjóða mig fram til alþingis eða stjórnlagaráðs hefði ég ekki haft aðgang að eiginn bíl í stað þess að vera háð ósvegjanlegri ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk og án þess að hafa notendastýrða persónulega aðstoð. Það gefur augaleið að ef fötluð manneskja kemst ekki ferða sinna, stjórnar ekki hvar hún býr og hver aðstoðar hana, er ekki treyst til þess að hafa dómgreind til þess að meta þörf sína fyrir aðstoð, kemst ekki um vegna skorts á aðgengi eða býr við sárafátækt vegna brotakennds almannatryggingarkerfis, er mjög flókið fyrir hana að kjósa í kosningum, hvað þá að bjóða fram krafta sína til stjórnmálaþáttöku. Staðreyndin er sú að meirihluti fatlaðs fólks býr við þessar aðstæður á Íslandi sem þýðir það einfaldlega að fatlað fólk hefur ekki borgaraleg réttindi og á Íslandi ríkir ekki lýðræði.

Hreyfihamlað og blint fólk er í auknum mæli að verða sýnilegra í stjórnmálaumræðu á Íslandi og er það mjög mikilvægt. Við erum samt mjög fá. Það skiptir þó máli að átta sig á að flest okkar sem höfum verið í stjórnmálum höfum t.d. haft aðgengi að viðeigandi aðstoð, en jafnframt þurft að berjast af miklum krafti til þess að komast á þann stað. Aðrir hópar þurfa einnig að hafa aðgengi að stjórnmálaþátttöku, t.d. fólk með þroskahömlun. Yfirskrift þessa málþings er um hvort atkvæði mitt skipti máli. Svarið er augljóst.

Atkvæði allra á að skipta máli en gera það ekki í raun. Því þarf að breyta svo engin upplifi sig sem afgangsstærð. Sem ódýrt atkvæði. Hvert atkvæði er rándýrt og það er algjört lykilatriði að stjórnmálafólk og aðrir valdhafar umgangist öll atkvæði sem slík og beri djúpstæða virðingu fyrir því að allir geti óhindrað greitt atkvæði sitt og boðið fram krafta sína í stjórnmálum.

29 views

Recent Posts

See All

Not being heard: #metoo and disabled women

Speech performed at the #Metoo conference in Reykjavík on the 18th of September 2018 Anna Sigrún Ingimarsdóttir, doctoral student in...

bottom of page