Flest hinsegin fólk þarf að koma út úr skápnum. Eva Sweeney, sem skilgreinir sig sem ‘butch dyke’ með skerðinguna CP, þarf hins vegar að koma út úr fjórföldum skáp. Hún útskýrir hér hvers vegna.
Þegar fólk hittir mig í fyrsta skiptið heldur það iðulega að ég sé tíu ára strákur í hjólastól, þrátt fyrir að ég sé 27 ára kona. Ég er ekki að reyna þetta en hæð mín, fatastíll og stutta hárið mitt gera það að verkum að fólk heldur að ég sé ungur drengur.
Ég er ‘butch dyke’ með CP. Ég nota rafknúinn hjólastól til þess að komast um og ég tala með því að benda á bókstafi á þar til gerðu samskiptaspjaldi.
Fatlað fólk þarf yfirleitt að hafa mikið fyrir því að vera álitið kynverur með tiltekna kynhneigð (hvort sem það er gagnkynhneigð, samkynhneigð eða eitthvað annað). Ef þú bætir einhverskonar hinsegin kynhneigð inn í myndina á fólk almennt erfitt með að skilja að mögulegt sé að vera bæði hinsegin og fatlaður á sama tíma.
Hinsegin fólk þarf stöðugt að koma út úr skápnum fyrir fjölskyldu sinni, vinum, vinnufélögum og jafnvel ókunnu fólki. Ég þarf hins vegar alltaf að koma út úr skápnum fjórfallt. Ég þarf að koma út sem kona, sem sjálfstæð fullorðin manneskja, sem hinsegin og að loka sem ‘butch dyke’.
Að koma út hinsegin Þegar ég segi fólki að ég sé hinsegin fæ ég gjarnan afar persónulegar spurningar. Ein af mínum uppáhalds er „og hvenær stundaðir þú síðast kynlíf?“. Ég fékk þessa spurningu frá manneskju sem ég hafði einungis talað við í 3 mínútur og hún þekkti mig ekki neitt.
Algengast er samt að ég fái spurningar um hvernig ég stunda kynlíf. Ég skil vel að fólk sé forvitið, en myndir þú vippa þér upp að næsta ókunna manni úti á götu og spurja hann út í kynlífið?
Að koma út sem ‘butch dyke’ Partur af mínum sjálfskilningi er að vera ‘butch’ og ég klæði mig til að mynda í ókynjuð föt með hárgreiðslu sem mér finnst passa vel við minn sjálfskilning sem ‘butch’. Ég er mjög stolt af því hver ég er en upplifi þó oft takmarkaðan skilning frá öðru fólki.
Fólk hefur sagt við mig „þú hlýtur að vera bara ótrúlega stelpulegur hommi“. Ég átti vini sem sýndu mér fullan skilning að ég hélt en gáfu mér alltaf skartgripi og kjóla í gjafir með orðunum „þú munnt nota þetta þegar þú verður eldri“ – líkt og þeir væru að bíða eftir að ég myndi vaxa upp úr þessu.
Sýnileiki Ég hugsa að það sé óvenju flókið fyrir mig að útskýra kynhneigð mína vegna þess hve falið fatlað fólk er í menningunni okkar.
Ófatlað fólk þarf ekki að svara fyrir og útskýra kyngervi og kynhneigð sína með sama hætti fatlað fólk þarf að gera í degi hverjum.
Þegar hinsegin fólk með ólíkar kynhneigðir og kynvitund birtist í fjölmiðlum sjáum við nær aldrei einhvern með sýnilega skerðingu. Það gerir það að verkum að þegar fólk hittir mig, og annað fatlað hinsegin fólk, á það í stökustu vandræðum með að ná utan um þá hugmynd að fatlað fólk geti einnig verið hinsegin. Af þessum orsökum fáum við allar þessar skrýtnu og óviðeigandi spurningar.
Ég lít ekki svo á að fólkið sem spyr mig þessara spurninga sé í eðli sínu vondar manneskjur. Fyrir mér undirstrika þessar spurningar að bráðnauðsynlegt er fyrir ófatlað fólk að umgangast og eiga í meiri samskiptum við fatlað fólk í daglegu lífi.
— Greinin birtist upphaflega á ensku á vefsíðunni Lesbilicious.co.uk. Ákveðið var að þýða greinina og birta á vefsíðu Tabú svo hún sé aðgengilegri fyrir breiðari hóp fólks. Upphaflegu greinina má finna hér.