top of page

Mamman sem heyrir ekki neitt

Höfundur: Heiðdís Dögg Eiríksdóttir


Heiðdís Dögg ásamt eiginmanni sínum og eldri börnunum tveimur. Hún er ólétt af yngsta barninu á myndinni. Foreldrarnir halda á sitthvoru eldra barninu á hvolfi. Allir brosandi og glaðir.

Heiðdís Dögg ásamt eiginmanni sínum og eldri börnunum tveimur. Hún er ólétt af yngsta barninu á myndinni. Foreldrarnir halda á sitthvoru eldra barninu á hvolfi. Allir brosandi og glaðir.


Ég er mamma sem er tvítyngd á íslensku táknmáli (íTM) og íslensku ritmáli og er Döff (heyrnarlaus sem nota íslenskt táknmál). Í augum annarra er ég mamman sem heyrir ekki neitt og er með þá skerðingu samkvæmt læknisfræðilegu sjónarhorni sem ég upplifi og skilgreini mig aldrei samkvæmt. Ég er bara venjuleg mamma, geri mín mistök og geri ávallt mitt besta til að börnin mín fái það besta. Hindranir er eitthvað sem annað fólk setur upp eða með fáfræði og þekkingarleysi. Aðgengi mitt að íslensku samfélagi og þjónustu þess sem þjóðfélagsþegnar eiga rétt á og geta nýtt sér er í gegnum táknmálstúlk. Það er líka aðgengi þeirra sem ekki kunna íslenskt táknmál að nota táknmálstúlk. Ég er oft spurð hvort mig vanti táknmálstúlk, ég spyr oft á móti hvort okkur vanti táknmálstúlk eða hvort einstaklingurinn sem spyr kunni táknmál og ef ekki hvort ekki væri líka gott fyrir hann að hafa aðgang að táknmálstúlki.

Sumarið 2005 var ég frumbyrja, með myndarlega blómabumbu og leið stórkostlega. Á þeim tíma vann ég sem hjúkrunarnemi á deild hjá Landsspítalanum. Í slíku starfi er ég lukkuleg að fá að hitta allan aragrúan af fólki. Oft fékk ég að heyra vonir og óskir um að ófædda barnið mitt yrði heyrandi. Ég bara brosti enda ekki í neinu stuði til að slá fólki út af laginu með því að segja að í rauninni væri það ekkert verra ef barnið myndi ekki heyra NEITT. Dísin mín kom svo öskrandi reið í heiminn í MFS (meðganga, fæðing og sængurlega) einn októbermorguninn 2005. Í MFS var síður hætta á að ég lenti í færibændinu hjá fæðingardeildinni og pabbinn samþykkti ekki heimafæðingu í fyrstu fæðingu. Í færibandinu nennti ég ekki að eiga hættu á að lenda í fæðingu hjá fólki sem hafði aldrei hitt heyrnarlaust fólk áður eða var með einhverja gamla staðalímynd um heyrnarlaust fólk og þurfa að standa í því að fræða um heyrnarleysi, brjóta þessa gömlu staðalímynd, vera töluð um í 3ju persónu, fá klapp á kollinn frá fólki sem segir ,,BÆÐI heyrnarlaus að fara eignast barn svona DUUUGLEEEG”. Í 5 daga skoðuninni var kíkt á frumburðinn okkar og frummæling gerð á heyrninni, við fengum þessi svör ,,TIL HAMINGJU, barnið ykkar HEYRIR og þið þurfið engar áhyggjur að hafa af heyrnarleysi”. Hvað er að því að vera heyrnarlaus? Okkar upplifun var að þetta var frekar móðgun, nóg að óska okkur til hamingju með barnið, segja okkur svo niðurstöðurnar.

Börnin okkar eru þrjú í dag og eru tvítyngd, fyrstu táknin komu þegar þau voru 6-8 mánaða og eru þau öll altalandi á íslensku og íslensku táknmáli. Við völdum yndislegan leikskóla fyrir börnin, Sólborg þar sem táknmálið er til staðar og þarna eru önnur börn Döff foreldra og Döff börn. Oft rekumst við foreldrarnir á fólk sem beygir sig niður og segir við börnin hvað þau eru dugleg að eiga heyrnarlausa foreldra, höfum fengið spurningar hvort barnið sé heyrnarlaust, og þegar það var upplýst að það væri ég, mamman, eða pabbinn sem er heyrnarlaust þá hafa komið svona gusur ,,guð minn góður, mér þykir þetta leitt og vonandi batnar þetta!” eða ,,þú sem varst svo falleg” eða ,,hvað ertu að segja, það bara sést ekkert á þér” eða ,,þið svona dugleg að kenna barninu táknmál” (eruð þið að kenna barninu ykkar íslensku, nei, þið talið við barnið og ykkar móðurmáli og það gerum við líka), ég get talið upp fleiri skondin dæmi en stundum eru þau bara ekkert skondin.

Síðar kom yngri bróðir Dísinnar í heiminn heima vorið 2008. Hann fór líka í þessa flottu 5 daga skoðun þar sem heyrnin var tékkuð. Við pollróleg, prófandinn horfði harmi sleginn á okkur, sagði að mælirinn væri eitthvað að stríða, prófaði aftur og sagði svo að það sýndi að annað eyrað sýndi ekki viðbrögð og sér þætti þetta leitt. Sagði okkur að hafa engar áhyggjur, líklegast væri þetta bara vökvi sem ætti eftir að losna. Þegar við sögðum að það breytti engu hvort barnið heyrði eða ekki, þá fengum við hneysklunarsvip, vorum spurð hvort við værum ekki að grínast og hvort við virkilega óskuðum barni þess að vera heyrnarlaust. Ég gerði ekkert þarna enda vildi ég bara drífa mig í minn heim enda nýbökuð mamma sem nennti ekki að synda á móti þessum straumi sem ég stundum kalla dómhörkustraum eða fáviskustraum.

Í dag erum við 5 í fjölskyldunni, einn hundur og tökum á móti tveimur flottum strákum sem eru Döff og nota íslenskt táknmál. Við erum ekkert duuugleegri en annað duglegt fólk, það er ekkert erfiðara fyrir okkur að vera foreldri en aðrir foreldrar, við gerum allt sem okkur langar og verðum að gera. Við höfum verið spurð alls konar spurninga, hvernig við förum að því að keyra bíl, hvernig við menntum okkur, hvernig við vöknum við börnin o.s.frv. Stundum erum við hrekkjalómar og segjum að við vitum ekki hvernig við keyrum, bara reynum að komast á leiðarenda, vöknum ekkert við börnin og hefðum farið á netið og pantað menntunina okkar. Við stöndum vörð um börnin og erum meðvituð um þessa fáfræði sem er hjá sumum í samfélaginu. Börnin okkar fá aldrei að túlka fyrir okkur og gera það aldrei, þau er heppin að tilheyra tveimur menningarsamfélaginu og eru rík að vera tvítyngd á íslensku táknmáli og íslensku, eiga vini í báðum menningarsamfélögum. Okkar aðgengi að samfélaginu er táknmálstúlkur og eins ykkar aðgengi að okkur ef þið eruð ekki fær í íslensku táknmáli.

Heiðdís Dögg Eiríksdóttir, mamma, formaður félags heyrnarlausra og hjúkrunarfræðingur

20 views

Recent Posts

See All
bottom of page