Höfundur: Embla Guðrúnar Ágústsdóttir
„Hvað ætli þið svo að kjósa?“ Ekkert svar, bara smá dularfullt glott yfir eldhúsborðið. Þá má ekki spyrja aftur, því hver og ein manneskja hefur rétt á leynilegri atkvæðagreiðslu. Mikið hlakkaði ég til að fá að taka þátt í þessu leyndardómsfulla athæfi fullorðna fólksins. Kosningar voru merkilegar og smám saman lærði ég um mikilvægi þess að nýta kosningaréttinn því í gamla daga hefðu konur ekki mátt kjósa. Að kjósa ekki, var vanvirðing við baráttukonurnar miklu og það var merkileg stund að kjósa í fyrsta sinn.
Ég hef lengi velt því fyrir mér hvenær fatlað fólk kaus fyrst á Íslandi. Í þau ár sem ég hef tekið þátt í jafnréttisbaráttu og á öllum þeim jafnréttisráðstefnum sem ég hef setið hér á landi hef ég sjaldan heyrt minnst á mikilvægi þess að tryggja fötluðu fólki kosningarétt og um aðgengi fatlaðs fólks að kosningum á árum áður. Þessi þáttur er hreinilega ekki hluti af sögunni sem sögð er og veldur það mér vonbrigðum.
Í aðdraganda 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna fór ég að grúska í lagasafni Alþingis og komst ég að því að fatlað fólk fékk formlega kosningarétt með stjórnarskrábreytingum árið 1934. Þrátt fyrir það hafa margskonar félagslegar hindranir, bæði formlegar og óformlegar, staðið í vegi fyrir því að fatlað fólk fái notið hans að fullu. Með formlegum hindrunum er til dæmis átt við að fjöldi fatlaðs fólks býr enn við þær aðstæður að geta verið svipt sjálfræði vegna skerðingar sinnar. Lögræðislög hér á landi miðast því miður ekki við það að veita fólki stuðning til að það fái notið jafnrar réttarstöðu á við aðra og að viðurkenning sé borin fyrir borgarlegum réttindum þess. Í ofan á lag hefur jaðarsetning fatlaðs fólks og félagsleg einangrun, ekki síst innan aðgreindra búsetu- og þjónustuúrræða, haft hamlandi áhrif á það að virðing sé borin fyrir sjálfsákvörðunarrétti fólks og það fái viðeigandi stuðning til að fá hans notið. Þó að fatlað fólk hafi formlega haft rétt til kosninga í 81 ár er því fjarri að allt fatlað fólk hafi tækifæri til þátttöku í kosningum.
Fatlað fólk hefur til að mynda barist fyrir því að fá sjálft að stjórna því hver veitir því aðstoð við að greiða atkvæði í kosningum. Það hefur haft þau áhrif að árið 2012 var gerð breyting á öllum kosningalögum landsins. Í 86. gr. laga um kosningar til Alþingis segir um aðstoð við atkvæðagreiðslu „[sé kjósandi] eigi fær um að kjósa á fyrirskipaðan hátt sakir sjónleysis eða þess að honum sé hönd ónothæf skal sá úr kjörstjórninni er kjósandi nefnir til veita honum aðstoð til þess í kjörklefanum […][eða að] hann óskar eftir að fulltrúi, sem hann hefur valið sjálfur, aðstoði hann við að greiða atkvæði í kjörklefanum.“ Í greininni segir jafnframt „Kjörstjórn skal heimila fulltrúanum að aðstoða kjósandann við atkvæðagreiðsluna geti kjósandi sjálfur með skýrum hætti tjáð kjörstjórn vilja sinn.“
Ljóst er að fatlað fólk sem þarf aðstoð af öðrum ástæðum en þeim sem greint er frá hér að ofan eru ekki tryggð sömu tækifæri til þátttöku í kosningum líkt og okkur sem höfum „réttar“ skerðingar. Jafnframt er gerð sú krafa að fatlaðir kjósendur geti tjáð sig með skýrum hætti, án þess að skilgreina skýrleikann í lögum. Ekki veit ég hvernig í veröldinni það ætti að vera hægt.
Á þessu ári fögnum við því að 100 ár eru liðin frá skilyrtum kosningarétti kvenna. Við skulum þó gera okkur grein fyrir að við erum ekki að halda uppá 100 ára kosningarafmæli allra kvenna. Enn eru konur á Íslandi sem geta ekki nýtt kosningarétt sinn. Mikilvægt er að hafa í huga að það er ekki nóg að fjalla einungis um jafnrétti kynjanna eða jafnan rétt fatlaðs og ófatlaðs fólks því misréttið hefur hinar ýmsu birtingarmyndir. Það hvort þú hefur raunverulegan kosningarétt ræðst af því hvernig kona þú ert og hvernig fötluð manneskja þú ert.
Grein þessi britist upphaflega í ársriti á vef Morgunblaðsins þann 17. júní 2015 www.mbl.is