top of page

Nýjar bækur eftir fatlaðar konur

Sögur fatlaðra kvenna hafa lengi verið ósagðar og réttindabarátta fatlaðs fólks verið dómineruð af körlum. Í tilefni af Alþjóðlegum baráttudegi kvenna viljum við vekja athygli á fjórum nýlegum bókum eftir fatlaðar konur. Sögur þeirra, og skilaboð, eru mikilvægar og dýrmætar fyrir okkur sem fatlaðar konur. Þær eru einnig vitnisburður um afrek og framlag þeirra til réttindabaráttu, framfara og listsköpunar.



Bókakápa Being Heumann eftir Judith Heumann og Kristen Joiner

AN UNREPENTANT MEMOIR OF A DISABILITY RIGHTS ACTIVIST

Judith Heaumann er merk fötluð baráttukona frá Bandaríkjunum og hefur verið leiðandi á sviðinu síðustu 50 árin en nýverið gaf hún ævisögu sína ásamt Kristen Joiner. Hún hefur starfað sem ráðgjafi stjórnvalda sem og fyrir mörg baráttusamtök fatlað fólk, m.a. á sviði hugmyndafræðinnar um sjálfstætt líf. Í bókinni segir Judith frá æskuárum sínum en hún var orðin níu ára þegar hún fékk loksins að ganga í skóla. Hún deilir jafnframt reynslu sinni af því að vera fatlaður kvenaktivisti í heimi sem er hannaður af ófötluðum körlum. Í bókinni segir Judith; „Breytingar verða aldrei á þeim hraða sem við viljum að þær verði. Þær eiga sér stað yfir fjölda ára, þar sem fólk kemur saman, setur sér stefnu, deilir hvert með öðru, og togar í alla spotta sem það getur. Á endanum, eftir óbærilega langan tíma, byrjar eitthvað að gerast, og þá allt í einu, nánast eins og þruma úr heiðskýru lofti, brestur eitthvað.“



Bókakápa The first Deafblind person to graduate from Harvard Law School eftir Haben Girma

Bókin er lífs- og baráttusaga Haben Girma sem er mannréttindalögfræðingur og fyrsta manneskjan með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu til þess að útskrifast úr lögfræðideild Harvard háskóla. Haben er innflytjandi í Bandaríkjunum og kemur frá Eþíópíu en í bókinni segir hún frá fjölskyldu hennar og reynslu hennar af því að stunda laganám sem svört fötluð kona. Haben hefur bæði þróað og barist fyrir auknu aðgengi að stafrænni tækni, ekki síst til þess að auka aðgengi fatlaðs fólks að háskólanámi. Í viðtali hjá Disability Visability Project segir Haben; ,,Sem baráttumanneskja vil ég nota alla hæfileika mína til þess að auka aðgengi fatlaðs fólks. Hver saga í bókinni er vandlega valin til þess að auka skilning lesandans á því hve flókin áhrif ableismi hefur á allt lífið. Bókin er samansafn af skemmtilegum og áhugaverðum sögum sem stuðla eiga að því að hindranir verði fjarlægðar. Ég er vongóð um að lesendur finni til ábyrgðar við að fjarlægja aðgengishindranir í sínu nærumhverfi.”




Bókakápa Sitting Pretty eftir Rebekah Taussig

Rebekah Taussig er rithöfundur, kennari, móðir og þekktur aktivisti á instagraminu @sitting_pretty. Hún gaf nýverið út bókina Sitting Pretty: The View From My Ordinary Resilient Disabled Body þar sem hún fjallar um hvað það þýðir að lifa í líkama sem passar ekki inn í normatíva heiminn. Hún fjallar um flækjustig góðmennsku og góðgerðarstarfsemi, að vera bæði sjálfstæð og háð öðrum, og að upplifa nánd í samfélagi sem mótast af fjölmiðlum og opinberri umræðu sem er hlaðin ableisma. Á heimasíðu sinni segir Rebekah um bókina; „Þegar einhver sem er öðruvísi hræðir þig, er það tilvalið tækifæri til þess að halla þér fram, þegja og hlusta.“






Bókakápa Taugaboð á háspennullínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur

Fyrir jólin 2020 kom út ljóðabókin Taugaboð á háspennulínu eftir Arndísi Lóu Magnúsdóttur. Hún er með BA próf í frönsku og almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og stundar meistaranám í þýðingafræði við sama skóla. Ljóðabók Arndísar Lóu er tvískipt og fjallar um tjáningu og einangrun. Í þættinum Orð um bækur segir Arndís Lóa í tengslum við bókina; ,,Því fylgir mikið vald að geta tjáð sig og valdaleysi að geta ekki tjáð sig. (...) Þeir sem ekki geta tjáð sig með orðum geta haft mjög mikið að segja. Rödd þeirra þarf að heyrast. Að sama skapi liggur þeim sem geta tjáð sig ekki alltaf mikið á hjarta.” Taugaboð á háspennulínu eru fyrsta bók Arndísar Lóu og hlaut hún nýræktarstyrk Íslenskrar bókmenntamiðstöðvar fyrir handritið að henni.






Við hvetjum öll til þess að nálgast þessar bækur og lesa þær upp til agna!


Höfundur: Freyja Haraldsdóttir

224 views

Recent Posts

See All
bottom of page