top of page

Nýtt lógó og vefsíða Tabú

Updated: Mar 3, 2021

Nýir og spennandi tímar eru framundan hjá Tabú og fögnum við því með afhjúpun á nýju lógói Tabú og opnun nýrrar vefsíðu. Hönnuður nýja lógósins og myndskreytinga fyrir Tabú er myndlistar- og Tabúkonan Jana Birta Björnsdóttir.

Lógó Tabú eru bleikar varir á gulum hringlaga bakgrunni. Yfir varirnar vinstramegin er búið að líma túrkisbláan plástur sem farinn er að losna frá. Inni í munninum stendur Tabú með svörtu letri. 'Feminísk fötlunarhreyfing' hefur verið ritað í boga, sitthvorumegin við varirnar, yrst í gulahringnum.
Nýtt lógó Tabú
„Hugmyndin að lógóinu er byggð á því að rjúfa þögnina. Þögn sem er í sumum tilfellum þvingað á okkur vegna þess að það sem við höfum að segja er óþægilegt. Plásturinn er að rifna af vörunum vegna þess að við rjúfum þögnina og erum með læti. Við ákváðum að hafa plástur, en ekki límband eða teip, fyrir vörunum sem vísun í þá læknisfræðilegu sýn sem er ríkjandi í tengslum við fatlað fólk. Varirnar eru í sexý stíl með vísun í að fatlað fólk er líka kynverur.“ - segir Jana Birta

Andlitsmynd af Jönu Birtu Björnsdóttur. Hún er ljóshærð, með gleraugu og í köflóttri svarthvítri skyrtu.
Jana Birta Björnsdóttir

Jana Birta hefur undanfarin þrjú ár haldið úti myndlistarreikningi á Instagram @artbyjanabirta þar sem hún deilir listaverkum sínum og sýnir frá gerð þeirra. Á þeim tíma hefur Jana Birta margtoft blandað saman list og aktivisma til dæmis þegar hún bjó til 16 listaverk úr tilvitnunum Tabúkvenna í átakinu Vernd gegn ofbeldi. Þetta er í fyrsta sinn sem Jana Birta hannar lógó og segir hún ferlið hafa verið lærdómsríkt.



„Það var frábært að hafa Emblu og Freyju inn í hönnunarferlinu og fá þeirra skoðun í hverju skrefi því það gerði lógóið jafnmikið þeirra og mitt. Ég byrjaði á að skissa upp ýmsar útfærslur, sem síðan urðu að vatnslitamynd. Tölvuvinnan tók þá við og ég pússaði lógóið til með það að markmiði að það liti vel út í mismunandi stærðum og á hvaða miðli sem er.“ - segir Jana Birta að lokum.

Vefsíðan er unnin og hönnuð af Emblu Guðrúnar Ágústsdóttur, annarri talskonu Tabú, með dyggum stuðningi Ingibjargar Óskar Jónsdóttur tölvunarfræðings og velunnara Tabú.

268 views
bottom of page