Um leið og Tabú óskar ykkur gleðilegrar hátíðar viljum við þakka fyrir árið sem er að líða. Það hefur verið með öðrum hætti en oft áður og höfum við þurft að finna skapandi leiðir til þess að standa saman og halda baráttunni áfram.
Í byrjun árs tók Tabú þátt í að halda málþing um reynslu fatlaðra kvenna af háskólasamfélaginu og atvinnulífinu í samstarfi við Háskóla Íslands á Jafnréttisdögum. Frábær hópur kvenna brýndi raust sína um mikilvægi þess að fatlaðar konur hafi raunverulegt val til framhaldsmenntunar og frama á vinnumarkaði.
Við
skrifuðum
yfirlýsingu gegn ofbeldi gagnvart fötluðu barni og fylgdum henni eftir með fundi með bæjarstjóra Kópavogs, Landlækni og Umboðsmanni barna. Þá hannaði Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, listfræðingur og aðgerðarsinni, frábær vefveggspjöld í samstarfi við Tabúkonur til þess að varpa ljósi á ofbeldi gagnvart fötluðu fólki. Jana Birta Björnsdóttir, listakona og lífeðlisfræðingur, tók verkefnið enn lengra og gerði listaverk sem túlkaði hvert veggspjald.
Við skrifuðum einnig yfirlýsingu gegn stofnannavistun fatlaðs fólks á hjúkrunarheimilum sem við teljum auðvitað algjörlega sturlað að þurfa að gera árið 2020 í samfélagi sem hefur undirritað og fullgilt Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Ein af grunnstoðum í starfi Tabú er jafningjastuðningur og reynum við að halda úti öruggara rými fyrir okkur til þess að hittast, deila reynslu og hvetja hvor aðra áfram. Þetta hefur verið erfitt í heimsfaraldri og höfum við hist sjaldnar en við vildum. Við deyjum þó ekki ráðalausar og höfum haft rafræna hittinga sem sumar Tabúkonur hafa nýtt sér. Talandi um heimsfaraldur, að þá hafa okkar konur látið í sér heyra, enda óþolandi að fatlað fólk sé eftirbátar heilbrigðisyfirvalda og almannavarna þegar hætta steðjar að. Umfjallanir má finna hér og hér.
Árið 2020 hefur á alþjóðavísu verið sérstaklega þungbært fyrir fatlað fólk sem hefur látið lífið og orðið illa úti í heimsfaraldrinum. Margir halda því fram að það sé vegna þess að líkamar okkar séu viðkvæmir og því sé óhjákvæmilegt að við töpum fyrir veirunni. Við vitum þó betur og minnum á að misrétti í heimsfaraldri er stærri ógn en heimsfaraldurinn sjálfur. Mörg covid andlát fatlaðs fólks á heimsvísu eru tilkomin vegna lélegrar heilbrigðisþjónustu, bágrar félagslegrar stöðu og fjöldastofnanavistunar fatlaðs fólks. Við viljum líka minna á að fatlað fólk hefur unnið þrekvirki við að vera almannavarnir hvert fyrir annað á árinu, líka á Íslandi, og sýnt aðlögunarhæfni og seiglu umfram aðra í mikilli einangrun og lífsgæðaskerðingu.
Við vonum að nýtt ár færi okkur minni einangrun og fleiri tækifæri til þess að halda baráttunni áfram saman, í nærveru hvers annars. Framundan hjá Tabú eru spennandi verkefni sem við segjum ykkur frá fljótlega. Það eina sem við getum sagt í bili er: við erum klárar í slaginn.
Nýárshlýja, kærleikur og baráttugleði
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir
Freyja Haraldsdóttir
Talskonur Tabú