top of page

Opið bréf til Omega frá fatlaðri konu

Kæra Omega,

Í tilefni svokallaðrar kraftaverkahelgi sem söfnuður yðar stóð fyrir núna um helgina hef ég ákveðið að skrifa yður bréf þetta. Ég er sjálf bæði heyrnarlaus, sjónskert og hreyfihömluð ung kona, en lifi góðu lífi með eigið aðstoðarfólk og ýmiskonar þjónustu á borð við táknmálstúlka- og læknisþjónustu. Ég vissi ekkert af þessari kraftaverkahelgi fyrr en kvöldið áður, en systir mín, sem einnig er fötluð, er í Tabú-hópnum, sem er feminískur hópur fatlaðra kvenna sem berst fyrir jafnrétti. Mér brá heldur betur í brún þegar ég frétti frá henni að það væri fólk hér á Íslandi að boða lækningar í nafni trúar, og það árið 2015. Þó að ég sé ekki sjálf í Tabú ákvað ég að taka þátt í mótmælum þeirra við þessu, enda var þetta bein móðgun við mig og mína.

En kæra Omega, ég veit að þér trúið á Guð og treystið. Ég virði yðar skoðanir enda er margt fallegt sem stendur í Bíblíunni. Ég vil samt benda ykkur á nokkur atriði sem vert er að íhuga. Ég er skírð og fermd í íslensku þjóðkirkjunni en undanfarin ár hef ég velt eigin trú fyrir mér og komist að sömu niðurstöðu og heimspekingurinn Niesche sem sagði hin frægu orð „Guð er dauður“. En ég hef þó lært eitt og annað um kristni og fleiri trúarbrögð og þekki að sjálfsögðu boðorðin tíu. Ef Guð er sá sem ég held að hann sé, þá myndi hann vilja að vér stöndum á eigin fótum í stað þess að leita til hans með öll okkar vandamál. Það hefur t.d. valdið mér miklum vangaveltum að ef vér syndgum muni Guð fyrirgefa okkur eftir eina bæn. En eigum vér ekki fyrst og framst að fyrirgefa okkur sjálf? Auk þess skapaði Guð okkur eins og við erum, hann vill að við séum æðrulaus og elskum náungann.

Þó að til séu Bíblíusögur um að Jesú hafi læknað blindan og heyrnarlausan mann, voru þær sögur skráðar á allt annarri öld, þegar tæknin var ekki eins þróuð og þar sem hugtakið „jafnrétti“ var ekki til. Á tímum Jesú lifði fólk í góðgerðarsamfélagi þar sem fatlað fólk var annaðhvort útskúfað frá samfélaginu eða litið vorkunnaraugum. Svona samfélag er í mínum huga sjúkt samfélag. Þó að einstaklingur sé með alvarlega skerðingu þá er það samfélagið sem er að fatla hann. Samfélagið leggur hömlur fyrir einstaklinginn þegar það getur eins vel komið til móts við hans þarfir, fatlaði einstaklingurinn er jafnvel litinn hornauga. Í dag eru allt aðrir tímar. Við búum í velferðarsamfélagi þar sem allir eiga að vera jafnir óháð kyni, kynþætti eða útliti. Mannkynið er jafn fjölbreytt og það er margt. Það að auglýsa að Guð geti læknað fatlað fólk í gegnum heilara og að annað fólk geti keypt miða á þá sýningu gegn gjaldi, það er einum of gamaldags og fordómafullt.

Og ofan á allt þetta, þá er engin virðing borin fyrir okkur sem mótmælum. Þegar ég mætti í Austurbæjarbíó síðastliðið laugardagskvöld var mér ekki vel tekið. Fólk kom fram við mig eins og lítið barn og spurði mig í sífellu hvort ég vildi ekki læknast? Hvað kemur fólki það við? Ég var ekki þarna til að mótmæla Jesú eða Guði, heldur fyrirlitningu fólksins á því hvernig ég er. Svo ég spyr, er þetta í alvöru vilji Guðs?

Kær kveðja, Konan með skerðingarnar þrjár.

Höfundur kýs að láta nafn síns ekki getið. 

Sjá einnig tilkynningu Tabú.

5 views
bottom of page