top of page

Opið bréf til útvarpsstjóra vegna lélegs aðgengis að vefsvæði RÚV

Ágæti útvarpsstjóri.

Tabú er feminísk hreyfing fatlaðra kvenna sem lætur sig varða hvers kyns hagsmunamál fatlaðs fólks, þ.á.m. aðgengi að þjónustu fyrirtækja og stofnana samfélagsins í víðasta skilningi.

Erindi okkar með bréfi þessu er að benda á að vefsíða Ríkisútvarpsins er mjög óaðgengileg blindu og sjónskertu fólki sem notar sérstakan búnað, s.s. skjástýrihugbúnað, talgervil og punktaletursskjái til að ferðast um vefsíður og nýta sér alla þá möguleika sem þær hafa uppá að bjóða.

„RÚV okkar allra“ er kjörorð Ríkisútvarpsins, sem heyrist í auglýsingatímum sjónvarpsins á hverjum einasta degi, er áberandi á vefsvæðinu (geti fólk nýtt sér það) og er ætlað að undirstrika þá upplifun áhorfenda, lesenda og hlustenda að þeir eigi sinn þátt í því að gera RÚV að því sem það er og að RÚV kappkosti að veita góða þjónustu.

Það stingur því verulega í stúf við þetta kjörorð að ákveðinn hópur innan samfélagsins, hópur sem greiðir sinn nefskatt eins og aðrir, skuli ekki geta nýtt sér, með ásættanlegum hætti, þá þjónustu sem vefsvæðið býður uppá. Með aukinni netvæðingu verða vefsvæði fyrirtækja og stofnanna stærri og stærri þáttur í þjónustu þeirra og því mikilvægt að þær séu aðgengilegar öllum þeim sem leggja sitt af mörkum með skattgreiðslum. Það er óásættanlegt að opinber stofnun, í eigu allra landsmanna, komist upp með að halda úti, árum saman, vefsvæði sem ákveðinn hópur í samfélaginu getur ekki nýtt.

Við höfum fyrir því öruggar heimildir, úr röðum okkar samstarfskvenna, að Ríkisútvarpið hafi, árum saman, verið í samstarfi við Blindrafélagið um lagfæringar á aðgengi að vefsvæðinu án sýnilegs árangurs. Ennfremur herma sömu heimildir að nýtt vefsvæði Ríkisútvarpsins, sem opnað var í marsmánuði árið 2015, bjóði jafnvel upp á mun verra aðgengi en það eldra. Nýjustu breytingar á vefsvæðinu taka þó öllu fram hvað slæmt aðgengi varðar.

Það er skýlaus krafa Tabú að aðgengi að síðunni verði bætt nú þegar. Við gerum ráð fyrir að starfandi tæknifólk hjá Ríkisútvarpinu hafi þá þekkingu sem til þarf til að bæta aðgengið eftir alla þá vinnu sem fólk á vegum Blindrafélagsins og Ríkisútvarpsins hefur lagt í úttektir á aðgenginu og í að finna leiðir til úrbóta. Eitthvað hlýtur sú vinna að hafa skilið eftir, eitthvað bitastætt sem nota má við úrbæturnar. Ef ekki, eru ákveðnir einstaklingar innan Tabú, sem hafa til þess þekkingu og reynslu, tilbúnir að leggja starfsfólkinu lið sitt.

Það hlýtur að teljast hreint réttlætismál að allir notendur RÚV og skattgreiðendur hafi óheftan aðgang að öllum miðlum þess. Skattgreiðslan er ekki val og því ber Ríkisútvarpinu skylda til að þjónusta alla þegna samfélagsins eins vel og unnt er óháð fötlun.

Virðingarfyllst, F.h. Tabú

Ágústa Gunnarsdóttir Ásdís Úlfarsdóttir Ásta Dís Jenna Ástráðsdóttir Bára Halldórsdóttir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Erla B. Hilmarsdóttir Freyja Haraldsdóttir Guðbjörg Garðarsdóttir Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir Íva Marín Adrichem Jana Birta Björnsdóttir Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir Margrét Ýr Einarsdóttir Salóme Mist Kristjánsdóttir Sigríður Jónsdóttir Steinunn Þorsteinsdóttir Tara Margrét Vilhjálmsdóttir Þorbera Fjölnisdóttir Þórey Maren Sigurðardóttir

7 views
bottom of page