Við erum hér saman komin í dag - á jafnréttiseyjunni Íslandi – til þess að berjast fyrir því að konur á flótta - konur sem hafa búið við lífshættulegar aðstæður - fái að búa hér á þessu landi með okkur!
Afstaða stjórnvalda og Útlendingastofnunnar er oft fáránleg og í engu samræmi við lög, aðþjóðaskuldbindingar eða jafnréttisstefnur þessa lands. Afstaða stjórnvalda er heldur ekki í neinu samræmi við almennt siðgæði. Hvenær og hvernig gerist það að við viljum ekki hjálpa konum í neyð?
Rök stjórnvalda eru allskonar - að hér séu hvorki nægir peningar né nægt pláss til að taka á móti öllum - við vitum að það er hreinlega ekki satt.
Ömurlegustu rökin sem ég heyri gegn því að taka á móti fólki á flótta er setningin „en hvað með öryrkjana?“ Það er fátt ósmekklegra en að stilla tveimur jaðarsettum hópum saman - öryrkjum og hælisleitendum - í þeirri von að skapa tortryggni á báða bóga.
Við í feminísku fötlunarhreyfingunni Tabú höfnum alfarið þessum málflutningi! Við vitum að bág staða öryrkja hefur aldrei haft neitt að gera með það fólki sem hingað leitar eftir alþjóðlegri vernd og öryggi.
Skömmin er alfarið stjórnvalda!
Við getum ekki státað okkur af því að vera feminísk-jafnréttisparadís meðan við sendum enn konur á flótta úr landi í lífshættulegar aðstæður.
Kvennréttindi eru mannréttindi allra kvenna - líka kvenna á flótta!
Ég enda á orðum baráttukonunar Audre Lord - því þó þau séu gömul eiga þau enn þá fullt erindi. Audre Lord sagði:
“I am not free while any woman is unfree, even when her shackles are very different from my own.“
-------------------------
Samstöðufundur með konum á flótta var haldinn 4. desember '21 undir yfirskriftinni Öryggi fyrir allar konur: Kvenréttindi eru mannréttindi allra kvenna, líka kvenna á flótta!
Í lýsingu um samstöðufundinn koma fram:
Að undanförnu hefur verið greint frá nokkrum tilfellum þar sem ungum, einstæðum konum á flótta, sem hafa sætt kynferðislegu- og kynbundnu ofbeldi, kynfæralimlestingum og annarri ómannúðlegri meðferð hefur verið neitað um alþjóðlega vernd á Íslandi og bíða nú brottvísunar, meðal annars til Grikklands þar sem þær hafa sætt mismunun, fordómum og ofbeldi.
Í þessu ljósi boðuðu eftirfarandi samtök til samstöðufundar með konum á flótta og kröfðust þess að konurnar, og börn þeirra þar sem um ræðir, fái samstundis og skilyrðislaust dvalarleyfi á Íslandi, viðeigandi læknisþjónustu og stuðning við að koma sér fyrir í íslensku samfélagi.
Anti-rasistarnir Femínistafélag HÍ Kvenréttindafélagið No Borders Iceland Q-félagið Refugees in Iceland Réttur barna á flótta Slagtog Solaris Stelpur Rokka Stígamót Tabú Öfgar