Þann 5. júlí sl. sendi Tabú, ásamt Þroskahjálp, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Rannsóknarsetri í fötlunarfræðum, Geðhjálp og Öryrkjabandalagi Íslands sameiginlega áskorun til íslenskra stjórnvalda vegna viðauka við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hana má finna í viðhengi en einnig hér að neðan.
Viðauki við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.Áskorun til íslenskra stjórnvalda. Þann 20. september 2016 samþykkti Alþingi svohljóðandi þingsályktun: Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Þá ályktar Alþingi að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017. Í greinargerð með þingsályktuninni segir um fullgildingu viðaukans: Lagt er til að auk samningsins verði viðauki hans einnig fullgiltur. Viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis. Íslensk stjórnvöld undirrituðu valfrjálsa viðaukann við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og þau undirrituðu samninginn sjálfan árið 2007. Valfrjálsa bókunin mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin. Þess má geta að yfir 90 ríki hafa nú þegar fullgilt viðaukann. Nú er árið 2017 rúmlega hálfnað. Við viljum því minna Alþingi, dómsmálaráðherra, utanríkisráðherra og ríkisstjórnina alla á þessa ályktun sem Alþingi samþykkti með öllum greiddum atkvæðum. Við skorum janframt hér með á þessi stjórnvöld að gera það tímanlega sem gera þarf til að staðið verði við ályktunina og mannréttindi fatlaðs fólks fái þar með þá vernd sem viðaukinn veitir. Virðingarfyllst, Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar Hrannar Jónsson, formaður Geðhjálpar Margrét Steinarsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands Rannveig Traustadóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs í fötlunarfræði Freyja Haraldsdóttir, talskona Tabú Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands