Mynd: Jana Birta Björnsdóttir
Höfundur: Jana Birta Björnsdóttir, Msc í lífeindafræði og Tabúkona
Förum aftur til ársins 1994, ég er stödd í búð með mömmu. Skódeildin grípur athygli mína og ég gleymi mér í að skoða allskonar flotta skó. Ég finn að einhver horfir á mig, ég lít upp og þar stendur kona. Ég, fimm ára stelpa skynjaði að útlit mitt vakti einhverskonar óhug hjá henni, svipbrigði hennar voru það sterk að ég fylltist ótta og hljóp aftur til mömmu.
Þetta er mín fyrsta minning af því að fötlun mín vekur slæm viðbrögð, jafnvel óhug hjá annarri manneskju. Þarna var skammarfræinu sáð sem síðan hefur vaxið og dafnaði í hvert skipti sem ég innbyrði fötlunarfordóma. Líkt og þegar ég heyrði eða skynjaði að fötlun væri óæskileg og að fatlaðir einstaklingar væru ekki jafningar annarra í samfélaginu. Skammarfræið varð fljótt að skammarillgresi sem aftraði mér í daglegu lífi. Með hjálp frá 12 spora samtökum og Tabú hefur mér tekist að eitra fyrir skammarillgresinu.
Eitrið nær hinsvegar aldrei að djúpum rótunum sem bíða eftir næringunni, fötlunarfordómum, sem fólk í valdastöðu virðist hafa nóg af.
Framleiðir þú skammarfræ með viðhorfi, hegðun og tali?