Tabú mun næstu daga fjalla um kvikmyndina „Me before you“ sem er byggð á samnefndri bók eftir Jojo Moys. Kvikmyndin elur á hættulegum hugmyndum um verðmæti fatlaðs fólks, kynverund þess og líf. Hún er jafnframt uppfull af staðalímyndum kynjakerfisins og strokar út upplifun og veruleika svarts fólks og fólks sem er ekki hvítt. Til þess að klára þetta alveg er fötluð aðalpersóna leikin af ófötluðum leikara.
Fatlað fólk í Bandaríkjunum, Bretlandi og víðar mótmælir myndinni enda erum við komin með nóg af því að bækur og Hollywood myndir (og annað sjónvarpsefni) birti fatlað fólk nánast ekki öðruvísi en svo að líf okkar sé einskis virði, við séum byrði á okkar nánustu og samfélaginu og að betur sett dáin en fötluð.
Tabú tekur undir þessi mótmæli og mun leggja sitt að mörkum við að berjast fyrir því að sögur okkar, sem eru sterkar, viðburðaríkar, kraftmiklar, flóknar, fallegar, mikilvægar, fjölbreyttar og áhugaverðar, séu fyrst og fremst sagðar af okkur sjálfum og að fatlaðir leikarar fái hlutverkin okkar enda annað augljóslega að leiða okkur á villigötur. Sagan okkar er klárlega ekki ein saga en hún er ekki saga ófatlaðs fólks. Svo ef þið veljið að fjármagna kvikmyndir eins og „Me before you“ sem birta fatlað fólk með eins skekktum hætti og hún gerir og sækja þær í kvikmyndahús, leggjum við áherslu á að þið farið með það efst í huga að fatlað fólk er upp til hópa ósátt við þessa mynd og þetta er ekki okkar saga.