„Við erum örmagna, þetta er mjög erfitt. Við vitum ekki hvað við eigum að gera,”
Orð systur Hussein Hussein, írasks fatlaðs manns í leit að vernd á Íslandi kjarna líðan okkar allra í Tabú.
Íslensk stjórnvöld hafa nú ákveðið, í annað sinn, að vísa honum og fjölskyldu hans til Grikklands þar sem staða fatlaðs fólks er óviðunandi, nær ógerningur er að finna viðeigandi húsnæði og aðgengi að heilbrigðisþjónustu er lítið sem ekkert. Í desember í fyrra var Hussein Hussein og fjölskyldu hans brottvísað og brotið var alvarlega á réttindum hans í þeirri aðgerð. Var honum meinað að hitta lögmann sinn og réttindagæslumann fatlaðs fólks en þar að auki var hann gróflega meðhöndlaður af lögreglu er hún tók hann með valdi og setti í lögreglubíl. Nokkru síðar, eða 12. desember, 2022 kvað héraðsdómur upp dóm í máli Hussein Hussein og komst að þeirri niðurstöðu að brottvísunin væri ólögleg. Hann og fjölskylda hans komu því aftur til Íslands. Málinu fyrir dómsstólum er ekki lokið en samt sem áður á að endurtaka brottvísun í sambærilegri mynd.
Tabú fordæmir þessar aðgerðir Útlendingastofnunnar og stjórnvalda harðlega og bendir á að í Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega kveðið á um vernd fatlaðs fólks í leit að vernd en í 11. gr. segir að ,,Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir." Hér bregðast íslensk stjórnvöld Hussein Hussein - í annað sinn.
Við þetta má bæta að í 15. gr. samningsins er sérstaklega kveðið á um að ,,Enginn skal sæta pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu." Þá segir einnig að ,,Aðildarríkin skulu gera allar árangursríkar ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, réttarkerfisins, eða aðrar ráðstafanir, í því skyni að vernda fatlað fólk, til jafns við aðra, fyrir pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða niðurlægjandi meðferð eða refsingu." Ekki er hægt að horfa fram hjá því að það að senda Hussein Hussein til Grikklands í heimilisleysi, hættu og skort á aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu teljist til annars en grimmilegrar, ómannlegrar og vanvirðandi meðferðar og refsingar.
Jafnframt er kveðið á um í 16. gr. að ,,aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, þar á meðal kynbundnum hliðum þessa." Ljóst er að íslensk löggjöf í útlendingamálum gerir þetta ekki miðað við að Hussein Hussein munu missa alla þjónustu og húsaskjól innan fárra daga sem mun útsetja hann enn frekar fyrir frekara ofbeldi enda tilheyrir hann mjög viðkvæmum hópi fólks sem fatlaður íranskur maður í leit að vernd.
Tabú minnir á að Ísland hefur bæði undirritað og fullgilt Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá hafa stjórnvöld talað fyrir lögfestingu þessa samnings. Við förum því fram á að aðgerðir endurspegli orðin og að Hussein Hussein verði veitt eðlileg málsmeðferð, vernd og þá þjónustu sem hann þarf eins og alþjóðasamningar gera ráð fyrir, sem tryggja honum og fjölskyldu hans öryggi og lífsgæði sem allar manneskjur fæðast með tilkall til.
Feminíska fötlunarhreyfingin Tabú