Við undirritaðar, fatlaðar konur í Tabú, vekjum athygli á þeim mannréttindabrotum sem framin hafa verið gagnvart Margréti Sigríði Guðmundsdóttur af háfu Kópavogsbæjar, eins og fram kom í frásögn hennar í kvöldfréttum á Stöð 2 föstudaginn 16. október s.l. Með nauðungarvistun hennar og einangrun í sjúkrarými á bráðadeild Landspítalans í hálft ár, með því að synja henni um eðlilega og sjálfsagða þjónustu á eigin heimili, með því að upplýsa hana ekki um NPA þjónustu sem hefur verið lögfest og með því að segja henni ósatt og telja henni trú um að ástand hennar hamli möguleika á heimaþjónustu er brotið alvarlega á mannréttindum Margrétar Sigríðar.
í Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og í alþjóðasamningunum um mannréttindi, þ.á.m. Samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er því lýst yfir og samþykkt að hver manneskja skuli eiga kröfu á réttindum þeim og frelsi sem þar er lýst, án nokkurs greinarmunar og aðgreiningar. Það á einnig við um fólk með skerðingar, hvort sem um langveikar eða fatlaðar manneskjur ræðir.
Samkvæmt þessum samningum á Margrét Sigríður rétt á að búa í eigin húsnæði, óski hún þess, og henni á að vera gert það kleift með viðeigandi þjónustu. NPA hefur verið lögfest þjónustuform og fatlað fólk á að hafa sömu tækifæri og ófatlað fólk til að lifa sjálfstæðu lífi. Sveitarfélag hefur ekki einhliða rétt á að svipta Margréti Sigríði heimili sínu og sjálfstæði sínu og senda hana nauðuga á stofnun fyrir aldraða. Ljóst er að hagsmunir Margrétar Sigríðar voru ekki hafðir að leiðarljósi við ákvarðanatöku opinberra aðila. Hagsmunir hennar ættu að snúast um að tryggja samfélagsþátttöku hennar til jafns við aðra og styðja hana til sjálfstæðis og frelsis. Ljóst er að víða um land býr fatlað fólk með sambærilegar þjónustuþarfir og Margrét Sigríður á eigin heimilum og fær sólarhringsþjónustu til dæmis í formi NPA. Kröfur Margrétar Sigríðar eru því hvorki óraunhæfar né fordæmalausar.
Í umsögnum Tabú við lagafrumvörp og reglugerðir höfum við endurtekið bent á að fötluðu fólki er ítrekað neitað um sértækar lausnir í þjónustu þó ljóst megi vera að synjun feli í sér brot skilgreindra mannréttinda gagnvart einstaklingnum. Þá höfum við jafnoft bent á að ríki og sveitarfélög hafa ítrekað staðið að tilgangslausu og þvermóðskufullu þrátefli um hver eigi að borga fyrir veitta aðstoð og hafa opinberir aðilar þá neitað að veita nauðsynlega aðstoð sem myndi tryggja áðurnefnd mannréttindi. Ríki og sveitarfélög hafa jafnvel gengið svo langt að rökstyðja þessar ákvarðanir með því að sértæk þjónusta feli í sér brot á jafnræði og mismunun, þ.e. rökleysu sem hefur viðhaldið ýmiskonar aðgreiningu, útilokun og/eða takmörkun á grundvelli fötlunar. Þessi dæmi bera vitni um grimmilega, ómannúðlega og vanvirðandi meðferð opinberra aðila í málum er snúa að fötluðu fólki. Mannréttindi einstaklinga eiga ekki að vera háð því hversu langt opinberir aðilar telja sér fært „að teygja sig“ og það er ólíðandi að þeir beri fyrir sig vanmætti og/eða getuleysi til að þjónusta hópa fatlaðs fólks.
Í nafni mannlegrar reisnar, frelsis og réttlætis skorum við á ráðherra ríkisstjórnarinnar og kjörna fulltrúa og embættismenn ríkis og sveitarfélaga að leysa í eitt skipti fyrir öll úr máli Margrétar Sigríðar, svo og úr öðrum sambærilegum málum. Einstaklingar sem þurfa á lífsnauðsynlegri aðstoð að halda til að lifa sjálfstæðu lífi eiga ekki að bera áhyggjurnar af því hvort opinberir aðilar hafi efni á og/eða geti réttlætt mannréttindi þeirra. Sem þjóð höfum við samþykkt, undirritað og skuldbundið okkur til að virða réttindi og mannlega reisn allra.
Við stöndum með þér Margrét Sigríður og sendum þér og fjölskyldu þinni stuðning okkar með samkennd og hlýhug í þessum erfiðu aðstæðum mismununar og niðurlægingar.
Fyrir hönd Tabú, femíniskrar fötlunarhreyfingar,
Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Erla B. Hilmarsdóttir Freyja Haraldsdóttir Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir Jana Birta Björnsdóttir Margrét Ýr Einarsdóttir Pála Kristín Bergsveinsdóttir Salóme Mist Kristjánsdóttir Sigríður Jónsdóttir Tara Margrét Vilhjálmsdóttir Þorbera Fjölnisdóttir Þórey Maren Sigurðardóttir