top of page

Yfirlýsing Tabú vegna ofbeldis þroskaþjálfa gagnvart fötluðu leikskólabarni

Tabú, feminísk fötlunarhreyfing, gerir alvarlegar athugasemdir við verklag leikskóla Kópavogsbæjar og skort á viðbrögðum sveitarfélagsins vegna ítrekaðra ofbeldisbrota þroskaþjálfa í starfi sínu gagnvart fötluðu barni á tímabilinu 2017-2018. Þá bendir Tabú á augljósar brotalamir í ráðningarferlum hjá Reykjavíkurborg sem hafa verið afhjúpaðar í ljósi þessa máls en umræddur þroskaþjálfi var ráðinn á leikskóla þar eftir að honum var sagt upp störfum hjá Kópavogsbæ. Þá lýsum við, undirritaðar, yfir djúpstæðri undrun, sorg og vonbrigðum vegna dóms Héraðsdóms Reykjaness í málinu, sem er hlaðinn ableisma, og gagnrýnum harðlega að málinu hafi verið vísað frá af hálfu Ríkissaksóknara sem sá ekki ástæðu til efnislegrar meðferðar eða áfrýjunar. Þær heimildir höfum við frá aðstandendum brotaþola. Það er ótækt að dómur Héraðsdóms Reykjaness standi. Réttlæti brotaþola og annarra fatlaðra barna næst ekki fram með þessum dómi.  

Íslensk lög, s.s. barnaverndarlög, kveða skýrt á um að tilkynna skuli allt ofbeldi, hvort sem það er af hálfu foreldra eða starfsfólks sem vinnur með börnum. Siðareglur þroskaþjálfa kveða skýrt á um að þroskaþjálfi beri „ábyrgð á eigin starfi og skal hafna þátttöku í starfsaðferðum sem ekki samræmast mannréttindum eða siðgæðisvitund hans“. Þá er Ísland aðili að alþjóðlegum mannréttindaskuldbindingum, s.s. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem kveða skýrt á um að börn skuli búa við friðhelgi frá hverskyns ofbeldi og að fötluð börn skuli búa við sérstaka vernd þar sem rannsóknir sýna að þau eru útsettari fyrir ofbeldi vegna jaðarsetningar.

Engin hegðun réttlætir ofbeldi gagnvart börnum


Öll leikskólabörn, óháð því hvort þau eru fötluð eða ekki, sýna margskonar hegðun til þess að tjá vilja sinn og líðan. Þau eru enn að læra félagslegar leikreglur og taka út þroska sem hjálpar þeim að segja hug sinn, nefna tilfinningar og útskýra þær. Fötluð börn hafa ekki alltaf tækifæri til þess að nota talað mál og reiða sig því  alfarið á tákn, líkamstjáningu, myndir og annað til þess að tjá sig. Sá réttur þeirra er skilgreindur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er það hluti af menntun þroskaþjálfa að tileinka sér aðferðir til þess að styðja fatlað fólk við óhefðbundnar tjáskiptaleiðir. Þegar börn hafa ekki tækifæri til þess tjá sig hefðbundið þýðir það að þau hafa enn minni völd en ófötluð börn og geta síður sett mörk og tjáð vanlíðan þegar þeim mislíkar eitthvað, eru þreytt, pirruð eða hefur verið misboðið. Þau upplifa líka jaðarsetningu, öðrun og útilokun á grundvelli aldurs og fötlunar og eru því oft uppgefin og ráðalaus. Þær aðferðir sem þau nota og eru þeim aðgengilegar, eru oft hegðun sem samfélagið dæmir óæskilega.

„Óæskileg“ hegðun hefur ítrekað verið notuð til þess að réttlæta ofbeldi gegn fötluðum börnum. Við mótmælum ableískum viðhorfum sem slíkum og vísum afsökunum skólayfirvalda og dómskerfisins alfarið á bug. Við krefjumst þess að öllum börnum sé tryggð vernd frá ofbeldi og að fötlun sé aldrei notuð sem réttlæting á því eins og dómur héraðsdóms gerir í þessu máli. Hegðun barna er tjáning á líðan þeirra og það er ábyrgð fullorðinna, einkum fagfólks, að skilja að „erfið hegðun“ er fullkomlega eðlilegt viðbragð við erfiðum aðstæðum — ekki síst þegar barn hefur takmarkaðar aðferðir til þess að tjá sig með hefðbundnum hætti. Að halda öðru fram er þolendaskömmun.

Geðsjúkdómar firra ekki sakhæfa gerendur ábyrgð

Það er gömul saga og ný að ofbeldisverk séu afsökuð með því að gerandi hafi verið „veikur“ og því hafi hann beitt ofbeldi eins og gert er í dómi héraðsdóms í máli þessu. Í slíkum viðhorfum birtist djúpstæður ableismi sem gefur til kynna að fólk með kvíða, þunglyndi og áfallasteitu séu líklegri til þess að beita börn ofbeldi. Þannig er verið að kasta rýrð á heilan hóp fólks og gera hann tortryggilegan gagnvart starfi með börnum. 

Ljóst er að ef manneskja er of veik til þess að sinna starfi sínu án þess að valda skaða er það á ábyrgð hennar að leita sér hjálpar. Ef hún er ekki fær um að sinna starfi sínu af fagmennsku og axla þá ábyrgð er það á ábyrgð leikskólastjóra og bæjaryfirvalda að hlúa að starfsfólki og leiðbeina því um að rétt sé að gera hlé á störfum og leita aðstoðar. Í umræddum tilvikum beitti gerandi fatlaða barnið ofbeldi í votta viðurvist í tvígang og það dugði ekki einu sinni til þess að starfsmaður væri tilkynntur til barnaverndar og/eða hvattur til þess að leita sér hjálpar.

Sú staðreynd að gerandi, sem metinn er sakhæfur, sé ekki dæmdur til refsingar fyrir brot sitt gegn fötluðu barni vegna þess að það geti ógnað velferð hans, er enn ein afhjúpunin á ableísku réttarkerfi sem metur það svo að gerandi skuli njóta vafans fram yfir brotaþola sem er fatlað barn.

Verklag leikskóla og sveitarfélaga

Málið sem hér um ræðir afhjúpar einnig skort á verklagi og/eða eftirfylgni verklags í kjölfar þess þegar fagfólk beitir ofbeldi í starfi. Eftir að gerandinn framdi fyrsta ofbeldisbrotið gagnvart brotaþola var ljóst að fagaðili hafði brotið siðareglur, lög og alþjóðasamninga og gæti ekki sinnt starfi sínu áfram. Undir þeim kringumstæðum hlýtur það að vera lykilatriði að málið sé tilkynnt til barnaverndar og að allt kapp hefði átt að vera lagt á að veita brotaþola áfallahjálp og sálrænan stuðning. Einnig hefði átt að upplýsa foreldra um brotið og gefa skýringar að fullu og skapa þeim aðstæður til þess að meðtaka atvikin, m.a. með aðkomu réttindagæslumanns og með því að veita þeim áfallahjálp og stuðning. Þannig eru foreldrar í mun betri stöðu til þess að vera talsmenn barna sinna. 

Þá hlýtur það að eiga vera lágmarkskrafa í ráðningarferli hjá sveitarfélögum eins og Reykjavíkurborg að til þess að starfa með börnum sé bakgrunnur umsækjanda skoðaður og óskað eftir meðmælum frá fyrrum vinnuveitendum. Þannig ættu sveitarfélög að vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að gerendur ofbeldis geti flakkað milli starfsstaða og ítrekað unnið með börnum án eftirlits með sín ofbeldisbrot að baki.

Kröfur Tabú

Tabú krefst þess að

  1. Landlæknisembættið svipti umræddan þroskaþjálfa starfsréttindum sínum tafarlaust.

  2. Dómarar á öllum stigum íslensks réttarkerfis fari í endurmenntun í því skyni að þekkja birtingarmyndir ableisma og greina skekkju hjá sjálfum sér og forréttindastöðu sína sem augljóslega er að aftra þeim í starfi.

  3. Ríkissáttasemjari taki málið til efnislegrar skoðunar og heimili áfrýjun. 

  4. Sá leikskóli sem um ræðir sæti úttekt á hvort hann sé starfshæfur og hvort yfirmönnum leikskóla sé stætt að starfa áfram.

  5. Kópavogsbær tryggi að til sé viðbragðsáætlun sem fylgt er í hvívetna í skólum þegar fagaðili beitir barn ofbeldi.

  6. Fatlaða barnið sem um ræðir, og fjölskylda þess, fái opinbera afsökunarbeiðni. 

  7. Reykjavíkurborg taki ráðningarferla til ítarlegrar skoðunar þar sem þetta er ekki í fyrsta sinn sem fólk með ofbeldisglæpi að baki fær starf með börnum hjá sveitarfélaginu.

Að endingu sendum við brotaþola kærleika, hlýju, hvatningu og ljós, og minnum á að hann á rétt á því að búa við friðhelgi frá ofbeldi. Einnig að það ofbeldi sem hann var beittur er ekki, undir nokkrum kringumstæðum, honum að kenna.  

Fyrir hönd Tabú,

Arndís Hrund Guðmarsdóttir

Bára Halldórsdóttir

Embla Guðrúnar Ágústsdóttir

Erla B. Hilmarsdóttir

Freyja Haraldsdóttir

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir

Iva Marín Adrichem

Jana Birta Björnsdóttir

Margrét Ýr Einarsdóttir

María Hreiðarsdóttir

Salóme Mist Kristjánsdóttir

Sigríður Jónsdóttir

Steinunn Þorsteinsdóttir

Tara Margrét Vilhjálmsdóttir

Þorbera Fjölnisdóttir

65 views
bottom of page