top of page

Yfirlýsing Tabú: Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra hunsa Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi

Tabú er feminísk fötlunarhreyfing sem leggur áherslu á að berjast gegn margþættri mismunun og stuðla að valdeflingu fólks sem upplifir jaðarsetningu á grundvelli margra þátta, t.d. fötlunar, kyngervis og aldurs.

Það liggur því beint við að við gagnrýnum harðlega þá ákvörðun Útlendingastofnunnar, með samþykki Sigríðar Á. Anderssen dómsmálaráðherra, að vísa Haniye Maleki og föður hennar, sem bæði eru fötluð, úr landi og veita þeim ekki vernd. Haniye er með mikla áfallastreitu í kjölfar þeirra erfiðu lífsreynslu sem hún hefur sem stúlkubarn á flótta og faðir hennar er hreyfihamlaður eftir slys. Feðginin búa við margþætta mismunun. Haniye á grundvelli fötlunar (andlegra veikinda), kyngervis (hún er stúlka), aldurs (hún er barn), uppruna og ríkisfangsleysis. Faðir hennar býr við mismunun á grundvelli fötlunar (hreyfihömlunar), uppruna og ríkisfangsleysis. Fólk sem býr við margþætta mismunun er, samkvæmt rannsóknum, enn útsettara fyrir ofbeldi og ótímabærum dauðsföllum.

Fyrir ári síðan fullgilti Ísland Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þar eru ákvæði sem tryggja þessum feðginum, og öðrum í sambærilegri stöðu, réttarvernd sem nú er verið að brjóta hér á landi. Samkvæmt 11. ákvæði samningsins eru aðildarríki skuldbundin til þess að „gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum.“

Í formálsorðum samningsins segir í p. lið að aðildarríki hafi áhyggjur „af erfiðum aðstæðum sem fatlað fólk, sem reynir fjölþætta eða stóraukna mismunun sakir kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernislegs eða félagslegs uppruna eða frumbyggjaættar, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu, stendur frammi fyrir“. Þar að auki er það ávarpað sérstaklega í q. lið að viðurkenna þurfi að „fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, að verða þolendur ofbeldis, meiðsla eða misþyrminga, hirðuleysis eða vanrækslu, illrar meðferðar eða misnotkunar í gróðaskyni“ og í r. lið að „fötluð börn ættu að njóta til fulls allra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn og minnast skuldbindinga í þá veru sem ríki, sem eru aðilar að samningnum um réttindi barnsins, hafa undirgengist“.

Þar að auki segir um margþætta mismunun gagnvart konum í 6. gr. að „Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur fjölþættrar mismununar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að konur fái notið sín til fulls, geti sótt fram og hafi fullan frumkvæðisrétt, í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum.“ Í 7. grein er sérstaklega fjallað margþætta mismunun fatlaðra barna en þar segir m.a.; „Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið fullra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við önnur börn. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.“

Við krefjumst þess að stjórnvöld taki ábyrgð á að tryggja fólki í hælisleit og fólki á flótta skjól og mannsæmandi líf á Íslandi. Við viljum einnig ítreka þann alvarleika sem felst í því að Útlendingastofnun og dómsmálaráðherra brjóti alþjóðlega mannréttindasamninga sem samdir voru af ástæðu og hafa lagastoð hér á landi. Mannréttindasamningar til verndar ákveðnum hópum eru til vegna þess að alþjóðlega er viðurkennt að ákveðnir hópar búa við það alvarleg mannréttindabrot að nauðsynlegt er að ávarpa réttarvernd þeirra sérstaklega. Að hunsa Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem og aðra samninga sem vernda mannréttindi, og brjóta á fötluðu fólki, þ.m.t. börnum, er ófyrirgefanlegt og forkastanlegt af ríkisreknum stofnunum og valdamiklu fólki sem við eigum að geta treyst.

Fyrir hönd Tabú,

Arndís Hrund Guðmarsdóttir Ásdís Jenna Ástráðsdóttir Embla Guðrúnar Ágústsdóttir Erla B. Hilmarsdóttir Freyja Haraldsdóttir Guðbjörg Garðarsdóttir Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir Inga Björk Bjarnadóttir Kolbrún Dögg Kristjánsdóttir Margrét Ýr Einarsdóttir María Þ. Hreiðarsdóttir Pála Kristín Bergsveinsdóttir Rán Birgisdóttir Salóme Mist Kristjánsdóttir Sigríður Jónsdóttir Þorbera Fjölnisdóttir Þórey Maren Sigurðardóttir

3 views
bottom of page