Ágæta Kastljós
Mig langar til að koma með innlegg í umræðu um svarta skýrslu um starfsemi Kópavogshælis. Margt hefur komið fram í þessari umræðu, sem er löngu tímabær, sem varpar ljósi á aðstæður fatlaðs fólks, nú síðast í Kastljósi í gær. Ég tek undir með réttindagæslumanninum sem sagði það skipta sköpum ef rætt yrði við fatlað fólk og að sjónarmið fatlaðs fólks heyrðust í þessari umræðu. Ef það gerist ekki breytist ekkert.
Þrátt fyrir þessa umræðu alla situr fatlað fólk enn undir því að verið sé að réttlæta rekstur stofnana í því formi sem verið hefur. Það er ekkert nýtt og endurspeglar opinber viðhorf ríkis og sveitarfélaga. Það gengur svo langt að í nýlegum drögum að frumvarpi til laga um þjónustu við fatlað fólk með sértækar stuðningsþarfir er slíkt form normalíserað sem þjónusta við fatlað fólk, jafnvel börn. Þetta viðhorf gengur þvert gegn markmiðum Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og, í tilfelli barna, Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Skýrslan um Kópavogshælið hlýtur að kalla á gagngera og gagnrýna endurskoðun á rekstri allra núverandi stofnana þar sem fatlað fólk er vistað.
Konur í Tabú, feminiskri fötlunarhreyfingu kvenna, skrifuðu ítarlega umsögn um þessi frumvarpsdrög, en það verður að segjast að frumvarpsdrögin vörpuðu vægast sagt afhjúpandi ljósi á hversu langt frá markmiðum Samnings Sameinuðu þjóðanna viðhorf og hugmyndir hins opinbera eru þegar rætt er um þjónustu við fatlað fólk. Alvarleg athugasemd var gerð við að réttarstaða fatlaðra barna hefði orðið undir í þessu frumvarpi. Í því er mikil áhersla lögð á aðgreind úrræði og er orðræðan í kringum réttindi barna afbökuð og ekki í samræmi við Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Tabú óttast að verið sé að binda í lög að vista megi fatlað barn utan eðlilegra fjölskyldu- og heimilisaðstæðna, og það án þess að önnur úrræði hafi verið fullreynd.
Hér er umsögn Tabú: http://tabu.is/umso%CC%88gn-tabu-um-frumvarp-til-laga-um-thjonustu-vid-fatlad-folk-med-sertaekar-studningstharfir/
og í fullri lengd: http://tabu.is/wp-content/uploads/2016/09/Umso%CC%88gn-Tabu%CC%81-frumvarp-til-ny%CC%81rra-laga-um-ma%CC%81lefni-fatla%C3%B0s-fo%CC%81lks.pdf
Drög frumvarpsins má finna hér: https://www.velferdarraduneyti.is/media/frettir2016/Frv.-um-thjonustu-vid-fatlad-folk—til-umsagnar-a-vef-VEL.pdf
Með þessari ábendingu hvet ég Kastljós og RÚV til þess að ganga á undan með góðu fordæmi og fá fatlaða álitsgjafa inn í þessa umræðu.
Með vinsemd og þökk, Sigríður Jónsdóttir