Um Tabú
Tabú er feminísk fötlunarhreyfing sem vinnur að félagslegu réttlæti og gegn margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki.
Tabú er hreyfing sem:
-
Skapar öruggara rými fyrir fatlað fólk, sem upplifir margþætta mismunun, til þess að stunda aktivisma og deila reynslu sinni og þekkingu.
-
Horfir á margþætta mismunun á grundvelli t.d. kynhneigðar, kynþáttar, kyngervis, flóttamannastöðu, holdarfars, aldurs og stéttar.
-
Veit og viðurkennir að ofbeldi er hversdaglegur veruleiki fatlaðs fólks og vinnur gegn því.
-
Hvetur fatlað fólk til að rjúfa þögnina og tala um það sem þótt hefur vera Tabú.
Fyrir hverja er Tabú?
Fatlaðar konur
sís og trans.
Fatlaða trans karla.
Fatlað kynsegin og
intersex fólk.
Fatlað og langveikt
fólk, óháð eðli fötlunar
eða veikinda.
Fatlað fólk er t.d. fólk með:
-
Þroskahömlun
-
Geðraskanir
-
Einhverfu eða annan taugabreytileika
-
Hreyfihömlun
-
Sjón- og heyrnarskerðingu
-
Langvarandi sjúkdóma
-
Verkja- og þreytusjúkdóma.
Fötlun er bæði sýnileg og ósýnileg og skilgreinist fyrst og fremst út frá upplifun og sjálfsmynd hverrar manneskju. Enginn er of lítið eða of mikið fatlaður til að geta tekið þátt í starfi Tabú.
Talskonur Tabú
Embla Guðrúnar
Ágústsdóttir
Embla er fædd árið 1990, uppalin í Reykjavík og Mosfellsbæ. Hún gekk í Borgarholtsskóla og fór þaðan í Háskóla Íslands að læra félags- og kynjafræði. Í BA námi sínu rannsakaði Embla öráreitni gegni fötluðu fólki.
Embla hefur frá unglingsaldri tekið þátt í aktivisma á Íslandi og tók meðal annars þátt í stofnun NPA miðstöðvarinnar þar sem hún var stjórnarformaður á árunum 2011-2014. Eins hefur Embla verið virk í Evrópusamstarfi meðal ungs fólks og tekið þátt í fjölda viðburða sem snúa að stöðu ungs fatlaðs fólks og fatlaðs hinsegin fólks í Evrópu. Í aktivisma sínum hefur Embla sérhæft sig einna helst í málefnum sem tengjast fötlun, kynlífi og kynfrelsi.
Allt frá því að Embla hóf sinn aktivisma hefur hún haldið fjölda erinda bæði hérlendis og erlendis. Jafnframt hefur hún haldið fyrirlestra á öllum skólastigum og fór árið 2014 með fyrirlestraröð til starfsfólks flestra grunnskóla í Reykjavík og víðar. Fyrirlestraröðin bar titilinn „Af hverju er barnið mitt ekki úti að éta sand“ en þar sagði Embla ásamt móður sinni, Guðrúnu Hjartardóttur, frá reynslu þeirra af skólakerfinu frá sjónarhorni foreldris og nemanda.
Embla stofnaði Tabú ásamt Freyju árið 2014. Samhliða því að vera talskona Tabú stundar Embla meistaranám í félagsfræði þar sem hún rannsakar Unaðsskömm í lífi fatlaðs fólks.
Embla býr í Hafnarfirði ásamt sambýliskonu sinni Völu, syni þeirra og tveimur köttum.
Freyja Haraldsdóttir
Freyja er fædd 1986 og er uppalin á Seltjarnaresi, í Breiðholti, Garðabæ og á Nýja Sjálandi. Hún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ og fór þaðan í Háskóla Íslands þar sem hún hefur lokið grunnámi í þroskaþjálfafræði og framhaldsnámi í hagnýtri jafnréttisfræði og kynjafræði. Freyja gerði meistaraverkefni sitt um sálrænar afleiðingar af misrétti fyrir fatlaðar konur.
Á framhaldsskólaárum sínum fékk Freyja áhuga á réttindabaráttu fatlaðs fólks og ferðaðist í framhaldsskóla með fræðslu um fötlun og fötlunarfordóma 2006-2007. Hún var framkvæmdastýra NPA miðstöðvarinnar frá 2010-2014 og ein af fyrstu fötluðu manneskjunum til þess að fá NPA samning. Freyja sat á stjórnlagaráði 2011 og var varaþingkona frá 2013-2016. Þá stofnaði Freyja, ásamt Emblu, Tabú 2014 og hefur sinnt kennslu og rannsóknum samhliða aktivisma síðustu árin.
Ásamt því að vera talskona Tabú stundar Freyja doktorsnám í menntavísindum þar sem hún rannsakar reynslu fatlaðra kvenna af móðurhlutverkinu. Viðfangsefni doktorsrannsóknarinnar er Freyju afar kært en hún hefur lagt á sig sjö ára ferli til þess að verða fósturforeldri. Freyja höfðaði dómsmál gegn Barnaverndarstofu vegna mismununar á grundvelli fötlunar í málsmeðferð og vann tímamótasigra í Landsrétti og Hæstarétti 2019. Freyja starfar auk þess sem réttindagæslukona fatlaðs fólks hjá Félagsmálaráðuneytinu.